131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:02]

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þm. Jóhann Ársælsson séum að mörgu leyti mjög sammála um þá þróun sem hefur átt sér stað að undanförnu hvað varðar raforkumarkaðinn. Við höfum verið sammála um að innleiða það samkeppnisumhverfi sem hér hefur nú rutt sér til rúms. Við höfum tekið um það ákvörðun líka hér, stjórnmálamenn, að stórauka niðurgreiðslur, til að mynda vegna húshitunar og annarra þátta og verjum 1.200 millj. til þeirra verkefna. Það er mjög mikilvægt mál fyrir hinar dreifðu byggðir sem hafa þurft að taka á sig meiri byrðar en ella og við höfum viljað koma til móts við þá aðila. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa framlög til þessa málaflokks margfaldast; margfaldast vegna þess að sá er vilji stjórnarmeirihlutans, og að ég tel stjórnarandstöðunnar líka, að við styrkjum byggð hér víða um land og reynum að jafna húshitunarkostnað landsmanna.

Hv. þingmaður spurði mig hvernig ég gæti séð fyrir mér framtíðarskipulag á raforkumarkaðnum hvað fyrirtækjaþáttinn varðar. Ég ætla ekki að svara því hér í stuttu andsvari. Ég á einfaldlega eftir að mynda mér skoðun á því og umræðan er rétt að hefjast. Við eigum eftir að skoða alla þætti hvað það varðar. Það eru margar hliðar á því máli. Ég held að þetta sé eitt af stærri úrlausnarefnum okkar í framtíðinni.

Við eigum að hefjast handa í þeirri vinnu að skoða þessi mál og velta þeim vel og gaumgæfilega fyrir okkur.