131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:19]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur lengi legið fyrir að þau sveitarfélög sem ásamt ríkinu eru með eignaraðild að Landsvirkjun hafa viljað losa sig við þá eignaraðild. Ríkið hefur léð máls á því að það verði gert. Við þær aðstæður er sjálfsagt að ríkið kanni með hvaða hætti er hentugast að koma fyrir skipan raforkumála á sínum eignarhluta í raforkufyrirtækjum þannig að hentugast sé, til að mynda með sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Það er sjálfsagt og eðlilegt.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um einkavæðingu Landsvirkjunar og þegar menn nefna það að vel geti farið á því í framtíðinni að fjármagn, sem er í eðli sínu langtímafjármagn sem er ekki fljótandi á markaði, til að mynda fjármagn lífeyrissjóða, geti átt vel heima í fjárfestingum í Landsvirkjun þá er ekkert að slíkum umræðum.

Þið ágætu þingmenn hafið haldið því fram að staða Landsvirkjunar sé veik, neikvæð og ömurleg, (Gripið fram í.) ef það væri nú svo, halda menn að einhverjir mundu leggja peninga í það fyrirtæki? Halda menn að einhverjir mundu leggja pening í slíku fyrirtæki? Halda menn að einhver færi að kaupa í því fyrirtæki? Að sjálfsögðu ekki.

Menn mundu auðvitað leggja fjármuni inni í fyrirtækið, aðilar sem hafa nægan tíma eins og lífeyrissjóðir og aðrir þess háttar, vegna þess að þeir hefðu trú á því fyrirtæki, teldu að það mundi bera ávöxt. Ella ekki. Áhættan er því engin og engin ástæða til að mála þessar grýlur á veggi.

Það lá fyrir að eigið fé Landsvirkjunar mundi lækka verulega þegar sú staða væri uppi að lántökur væru miklar, miklar framkvæmdir og tekjurnar ekki farnar að skila sér inn. Það lá alltaf fyrir, er til í öllum göngum og hefur ekkert breyst hvað það varðar. En það liggur líka fyrir í sömu gögnum að eigið fé Landsvirkjunar mun í framtíðinni vaxa hægt og örugglega og Landsvirkjun verða traust og öflugt fyrirtæki hér eftir sem hingað til.