131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:44]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra fór yfir nokkrar tölur og þar kom m.a. fram að við Íslendingar ætlum að eyða rúmlega 50 millj. til að flytja vopn til Íraks og þjálfa þar öryggissveitir. Við Íslendingar erum meðlimir í NATO og höfum verið þar í rúm 50 ár. Frjálslyndi flokkurinn styður þá aðild og hefur alltaf gert.

Stundum verður að gera fleira en gott þykir og mér þykir svo vera núna. Maður hlýtur að verða hugsi yfir því að við tökum þátt í vopnaflutningum. Maður hlýtur líka að vera hugsi yfir því að við séum að taka þátt í að kosta þjálfun öryggissveita. Við hljótum að fallast á þetta með þeim fyrirvara að þessum öryggissveitum verði einungis beitt til að gæta öryggis og að þeim verði ekki beitt í árásarskyni.

Frjálslyndi flokkurinn hefur alltaf verið harðlega á móti innrásinni í Írak. Þessi innrás hefur leitt af sér ótal þjáningar fyrir íbúana og eins og hæstv. utanríkisráðherra benti réttilega á berast daglega hroðalegar fréttir af óöldinni sem þar ríkir í kjölfar þessarar innrásar. Mér þykir sem við hefðum frekar átt að veita fjármuni til mannúðarstarfa í Írak. Það eru ekki háar fjárhæðir sem við höfum látið af hendi og ég tel að við hefðum átt að láta það hafa forgang.

Nýlegar rannsóknir sýna til að mynda að í dag er talið að um 400 þús. börn í Írak séu í lífshættu vegna næringarskorts og skorts á hreinu vatni. Þeim hefur fjölgað mjög eftir innrásina, einmitt vegna þess að matarsendingar hafa legið niðri og það er orðið erfitt með vatnsöflun, öflun hreins vatns. Þessar tölur koma frá óháðri rannsóknastofnun í Noregi og ég tel þær marktækar.

Þar hefðum við Íslendingar að sjálfsögðu átt að nýta krafta okkar en ekki í vopnaflutninga en ef varnarbandalagið NATO vill taka þátt í þessu megum við að sjálfsögðu ekki skorast undan. Í NATO erum við og í NATO skulum við vera.