131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:51]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. varaformaður utanríkismálanefndar veit vel eru ýmis verkefni sem hægt er að starfa við og vinna á vegum NATO. Það þarf ekki bara að taka það sem býðst eða það sem þrýst er mest á. Við erum ekki í neinni klemmu hvað varðar uppbygginguna í Írak. Við höfum verkefnaval og við getum valið verkefni við hæfi, frú forseti, og það var það sem ég benti á.

Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir hugvekjuna um lýðræðisþróunina í Miðausturlöndum. Við verðum náttúrlega öll að vona að konur í Kúveit og Sádi-Arabíu fái bráðum kosningarrétt og að þróunin sé í rétta átt. Það gæti þó verið að ein af forsendum þess að friður komist á í Írak, vonandi sem fyrst, sé sú að herinn, hernámsliðið, fari og að Írakar sjái um sín mál sjálfir. Ég verð að segja að þar mun ekki gera gæfumuninn framlag Íslendinga til þjálfunar öryggissveita. Írakar munu sjálfir sjá um það. Það mun ekki gera gæfumuninn að hið herlausa land Ísland flaggi sér þar sem sérstakur öryggisráðgjafi. Það er fráleit hugmynd, frú forseti, fráleit.

Verkefnin eru mörg og verðug og við ættum betur að hyggja að því sem meira máli skiptir fyrir almenning í Írak, t.d. rennandi vatni, skólasetu, samgöngum og atvinnu.