131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Kynferði og eignarhald í atvinnurekstri og landbúnaði.

[15:29]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Nýlega kynnti hæstv. viðskiptaráðherra fimm landa skýrslu um kynferði og eignarhald í atvinnurekstri og landbúnaði. Þar kom m.a. fram að 20% fyrirtækja hérlendis eru í eigu kvenna en hér er eins og allir vita atvinnuþátttaka kvenna ein sú mesta sem þekkist. Samt hafa þessi 20% haldist óbreytt í sjö ár, þ.e. frá 1998.

Í fjölmiðlum hefur hæstv. viðskiptaráðherra lýst því yfir að bæta þurfi aðgengi kvenna að fjármögnun, auk þess sem stoðkerfi atvinnulífsins þarfnist endurskoðunar, eins og hún orðaði það. Þeim orðum ber að fagna en um leið er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún hyggist fylgja þeim eftir.

Annað þessu máli tengt, frú forseti. Það er líka tilefni til að inna hæstv. viðskiptaráðherra Valgerði Sverrisdóttur eftir afstöðu hennar til fjölgunar kvenna í stjórnum fyrirtækja, jafnt ríkisfyrirtækja sem hlutafélaga. Nýjustu tölur í þeim efnum hér á landi gefa atvinnu- og viðskiptalífi einfaldlega falleinkunn. Nordic 500 verkefnið sýndi okkur að konur eru aðeins 11% stjórnarmanna í stærstu fyrirtækjum hér á landi og hlutfallið í 32 fyrirtækjum skráðum hjá Kauphöllinni er 5%. Hér fara mikil þekking, miklir hæfileikar og framlag kvenna bókstaflega forgörðum í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Ég leyfi mér því að inna hæstv. viðskiptaráðherra eftir því hvernig hún vilji taka hér á — ég trúi að hún vilji gera það og bæta stöðu kvenna — og hvernig hún hyggist gera það með beinum stjórnvaldsaðgerðum.