131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Kynferði og eignarhald í atvinnurekstri og landbúnaði.

[15:31]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg eins og ég hefði pantað þessa fyrirspurn vegna þess að ég er virkilega að beita mér í þeim málaflokki sem hér er nefndur, m.a. hvað það varðar að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Þar hef ég skipað nefnd sem hefur látið til sín taka og mótað tillögur um hvernig best væri að beita sér í þessum efnum. Fundir hafa verið haldnir með stjórnendum fyrirtækja, bæði sérstakir kvennafundir, karlafundir og svo blandaðir fundir þar sem ýmislegt hefur borið á góma. Ég tel að umræðan skipti miklu máli. Síðan hef ég skrifað bréf til stjórnenda stærstu fyrirtækja á Íslandi sem ekki hafa staðið sig nægilega vel í þessum efnum. Það var ósköp kurteislegt bréf en engu að síður er þess farið á leit við þá aðila að þeir velti fyrir sér hvort þarna sé ekki um möguleika, ákveðinn auð og auðlind að ræða sem sé vannýtt og þá er ég að tala um konur sem vel menntaðar og hæfar í stjórnir fyrirtækja.

Mér finnst eins og þetta sé nú þegar farið að skila ákveðnum árangri miðað við þá fundi sem haldnir hafa verið nýlega í fyrirtækjum, þ.e. á aðalfundum, og sá tími er einmitt núna þegar þessir fundir eru haldnir. Ég hlakka til að sjá árangurinn þegar þeirri fundalotu lýkur. Ég trúi að árangur náist.

Hvað varðar hitt málið, fimm landa samstarf sem hefur verið í sambandi við konur í atvinnulífinu og í landbúnaði, kemur það fram eins og hv. þingmaður gat um að við stöndum okkur ekki sérstaklega vel í þessum efnum. Innan við 20% fyrirtækja eru í eigu kvenna. Það sem ég sagði í framhaldinu var að núna verður farið yfir það hvort það séu virkilega hindranir í sambandi við fjármálastofnanir og stoðkerfi á Íslandi gagnvart konum sem vilja stofna fyrirtæki. Nú þegar fer vinna í gang í þeim efnum og sömuleiðis verður það stoðkerfi sem við höfum þó í dag styrkt frekar.