131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[20:02]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur fulla heimild til þess að hafa efasemdir um það sem hér er lagt til en hann verður samt að virða það að hér er verið að leggja sig fram um að auka neytendavernd í landinu. Nákvæmlega þessi aðferð er sennilega ekki til annars staðar en engu að síður er hún sett fram í fullri alvöru og hún er ekki sett fram til bráðabirgða heldur til framtíðar.

En hvers vegna Löggildingarstofa? Löggildingarstofa fæst við málefni sem snúa að neytendum og þar af leiðandi töldum við að hún væri upplögð í þessa neytendavernd með því að breyta nafninu í Neytendastofu.

Hv. þingmaður er ekki viss um að rétt sé að tala um talsmann og vill frekar hafa umboðsmann neytenda. En munurinn á þessu tvennu felst aðallega í því að talsmanni neytenda er hvorki ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála, eins og títt er með umboðsmenn, né er lagt til að talsmaður neytenda vinni að því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála. Lagt er til að þessi verkefni verði falin Neytendastofu. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður ýjar hér að að talsmaður heyri undir forstjóra Neytendastofu, hann er óháður honum. Hann hefur ekki það hlutverk að leysa úr einstökum deilumálum en hins vegar getur hann leiðbeint hvert skuli leitað.

Hvað varðar það skilyrði sem sett er um háskólapróf, þá er það ekkert einsdæmi að þetta sé orðað á þennan hátt í löggjöf að þess sé krafist að viðkomandi hafi háskólapróf. Hann þarf ekki að hafa lögfræðimenntun þar sem hann mun leita til starfsmanna Neytendastofu ef um slíkt er að ræða.