131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

585. mál
[13:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að leggja það inn í þessa umræðu að álit mitt er að það eigi ekki að vera forgangsmál að hefja hjartaþræðingar á Akureyri. Heilbrigðiskerfið er orðið mjög dýrt og við þurfum að sérhæfa okkur og við eigum mjög góða hjartadeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Til þess að sinna hjartaaðgerðin þarf mikla þjálfun og það þarf að gera margar aðgerðir, á hverjum degi liggur við, a.m.k. mjög margar á hverju ári, og ég sé ekki ástæðu til að sett verði upp hjartadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri vegna þess að 237 sjúklingar að norðan hafi þurft á hjartaþræðingu að halda. Það er mun hagkvæmara fyrir skattgreiðendur og okkur öll að þessar aðgerðir fari fram á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þar sem við eigum mjög færa og vel þjálfaða lækna til að sinna þessu. Fólk vill láta þjálfað starfsfólk gera slíkar aðgerðir.