131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

585. mál
[13:07]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála síðasta ræðumanni. Ég skil ekki þennan málflutning. Ég tel einmitt að tölurnar sýni að hér er ekki lengur um jafnsjaldgæfar og sérhæfðar aðgerðir að ræða og menn töldu kannski einu sinni vera. Þegar fjöldinn bara á upptökusvæði FSA er kominn hátt á þriðja hundrað þá gefur augaleið að það er meira en nóg til þess að halda starfsfólki þar í góðri þjálfun. Að sjálfsögðu kæmu menn bæði með reynslu og menntun til að gera þetta þegar þessi starfsemi færi þarna af stað.

Ég tel fyllilega tímabært að skoða þennan þátt í uppbyggingu og eflingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eins og aðra. Spurningin er náttúrlega sú: Ætlum við að vera með tvö deildaskipt sérgreinasjúkrahús í landinu eða ekki? Sú ákvörðun liggur fyrir og þá er það bara enn eitt verkefni af mörgum sem á að skoða hvenær er tímabært og hagkvæmt að hefja þessa starfsemi einnig fyrir norðan. Það hefur mikla kosti fyrir íbúa svæðisins. Það er liður í því að efla sjúkrahúsið sem stofnun og styður við aðra starfsemi sem þarna er með alveg sama hætti og efling rannsóknardeilda og annað því um líkt hefur verið liður í uppbyggingu sjúkrahússins. Ég vona því að hv. þingmaður endurskoði hug sinn áður en hún heldur fleiri ræður um málið.