131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Samningur um menningarmál.

541. mál
[16:00]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Þegar hugmyndir Eyþings, Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, voru kynntar í menntamálaráðuneytinu var erindi þeirra svarað með sambærilegum hætti og annarra þeirra sveitarfélaga sem óskað hafa eftir menningarsamningi við ríkið. Ráðuneytið lýsti sig þá reiðubúið til viðræðna um samstarf sem byggðist á sömu grundvallarsjónarmiðum og samningur ráðuneytisins við sveitarfélög á Austurlandi sem hefur orðið einhvers konar fyrirmynd þeirra sveitarfélaga sem leitað hafa eftir slíku samstarfi.

Ráðuneytið óskaði jafnframt eftir upplýsingum um stefnu og markmið í menningarmálum á Eyjafjarðarsvæðinu, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Þá áréttaði ráðuneytið að allar fjárveitingar úr ríkissjóði til samstarfs af þessu tagi væru háðar samþykkt Alþingis og það er rétt að menn hafi þetta vel í huga.

Þá taldi ráðuneytið nauðsynlegt að fyrir lægi afstaða Akureyrar um hvort þeir hygðust jafnframt vera aðilar að slíkum samningi. Í kjölfar þessa var einnig haldinn fundur fulltrúa sveitarfélaganna með fulltrúum ráðuneytisins um forsendur fyrir slíkum samningi í apríl 2003.

Í framhaldi af því var nefnd á vegum Eyþings skipuð sem skilaði formlega frá sér tillögum sínum með bréfi til mín dagsett 10. febrúar sl. með ósk um viðræður við mig um framhald þessa máls. Af þeim gögnum sem send voru í mánuðinum má ráða að þau hafi unnið vel saman að undirbúningi þessa máls og viðræðum við ríkið, m.a. aflað ýmissa tölfræðilegra upplýsinga og unnið að stefnumótun. Þá liggur fyrir að ekki sé talið skynsamlegt að menningarsamningur ráðuneytisins við Akureyri sem fjármagnar starfsemi atvinnulistastofnana þar falli inna ramma samstarfs við Eyþing.

Nefndin telur hins vegar að önnur menningarstarfsemi á Akureyri rúmist vel innan samstarfssamningsins. Þá hefur nefndin unnið drög að samningi, annars vegar samstarfssamningi sveitarfélaganna innan Eyþings og hins vegar samningi sveitarfélaganna við ríkið. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að hitta fulltrúa Eyþings frá því að ég fékk þessi gögn í hendur en tel að af fundi okkar geti orðið fljótlega.

Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn því að hún gefur mér jafnframt tækifæri til þess að upplýsa hið háa Alþingi um stöðu mála í viðræðum ráðuneytisins við þau sveitarfélög sem gert hafa menningarsamning við ríkið. Í gildi er menningarsamningur við Akureyri sem rennur út í árslok 2006. Ráðuneytið hefur hins vegar að undanförnu átt í viðræðum við sveitarfélögin á Austurlandi um forsendur fyrir endurnýjun á menningarsamningi við landsfjórðunginn en fyrri samningur rann út um áramótin.

Á fjárlögum þessa árs eru ætlaðar 34 millj. kr. til samningsins auk 17 millj. kr. í stofnstyrki. Ég lít svo á að menningarsamningurinn við Austurland sem undirritaður var árið 2001 hafi verið tilraun en jafnframt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög sem kjósa að óska eftir sambærilegu samstarfi við ríkið um menningarmál. Því skiptir nokkru hvernig slík tilraun er þróuð áfram til hagsbóta bæði fyrir sveitarfélögin og ríkisvaldið.

Ég vil að þeir samningar sem gerðir verða við sveitarfélögin verði í stöðugri þróun og umræðu til eflingar menningarmála þar sem allir samningsaðilar bera ábyrgð, bæði fjárhagslega og faglega. Því hef ég óskað eftir annars vegar að samgönguráðuneytið verði aðili þessara samninga ásamt menntamálaráðuneyti til að efla m.a. menningartengda ferðaþjónustu því að þar á milli eru oft mjög óljós skil eins og gefur að skilja. Hins vegar vil ég sjá sveitarfélögin koma með skýrari hætti með fjárframlög til verkefna sem samningurinn tekur til, þ.e. verkefnastyrkja, rekstrarstyrkja og starfsemi menningarráðanna. (Gripið fram í.)

Fyrir liggur í ráðuneytinu að ganga til viðræðna á ný við Vestlendinga sem lengi hafa beðið eftir slíkum samningi með ofangreindar forsendur ráðuneytisins í huga, rétt er að undirstrika það. Hið sama á við fulltrúa Eyþings en ég get ekki sagt til um á þessari stundu hvenær hægt verði að ganga frá slíkum samningum. Það mun síðan fara eftir viðbrögðum samningsaðila okkar við þeim nýju forsendum sem ráðuneytið leggur til grundvallar sem og — sem er náttúrlega ekki síður mikilvægt — fjárveitingum til þessara samninga, en eins og hv. fyrirspyrjandi veit manna best er það Alþingi sem hefur síðasta orðið í þeim efnum.