131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:04]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er andsvar mitt sennilega því marki brennt að ég var ekki hér þegar hv. þingmaður ræddi þetta mál fyrr og ég heyrði ekki þær skýringar sem þar komu fram, hvorki frá hans hendi né annarra. Ég tel að það sem við leggjum til sé eingöngu til að reyna að gera þau réttaráhrif sem e.t.v. hafa orðið sem minnst. Það er auðvitað ekki auðvelt að taka til baka ef eitthvað hefur verið framkvæmt á tímabilinu frá því að lög öðluðust gildi og þar til þjóðaratkvæðagreiðsla hefur fellt þau úr gildi. Ég veit að hv. þingmaður veit það jafn vel og ég. Ég held að ég geti ekki svarað þessu nánar.