131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:33]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt sem fram kom í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, m.a. um mikilvægi þess að lög, hvort sem það eru þau lög sem hér eru til umfjöllunar eða önnur, séu skýr og það liggi fyrir hvaða reglur gilda á hverju sviði, hvort sem það eru áfengisauglýsingar eða eitthvað annað.

Ég verð að segja að fyrir mitt leyti þá er ég ekki hlynntur þeirri stefnu eða sýn sem fram kemur í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar. Ég hef verið frekar talsmaður þess að gera tilslakanir varðandi heimildir til að auglýsa áfengi. Ég minni á það í því sambandi að um er að ræða löglegar vörur sem ríkið, af öllum aðilum, hefur einkarétt á að selja. Þetta er lögleg neysluvara hvort sem mönnum líkar hún eða ekki.

En það er eitt vandamál við þessa löggjöf og það að herða það auglýsingabann sem nú er í lögum. Hvort sem þetta frumvarp verður samþykkt eða ekki, yrði að lögum eða ekki, þá breytir það því ekki að eftir sem áður verða áfengisauglýsingar heimilar. Það er nefnilega þannig að við leyfum innflutning á erlendum tímaritum til landsins, við leyfum endurvarp á erlendu sjónvarpsefni og heimilum fólki frjálsan aðgang að netinu. Á öllum þessum miðlum eru endalausar og óþrjótandi áfengisauglýsingar. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að þetta frumvarp nái fram tilgangi sínum þegar þær heimildir til auglýsinga eru nú þegar til staðar í lögum?