131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:46]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Í febrúar 2001 ræddum við á hinu háa Alþingi mál er varðaði varðskip sem voru send til Póllands í viðgerð. Hver var niðurstaðan í því máli? Tilboðsverkið fór 12% fram úr áætlun þannig að innlenda tilboðið sem gert var í Hafnarfirði varð að lokum hagstæðara. Samningsupphæðin við Pólverjana var 60 millj. og þegar búið var að reikna inn hækkunina vegna tilboða og aukaverk var upphæðin orðin 105 millj. Það var allur sparnaðurinn.

Við þá umræðu sagði hæstv. iðnaðarráðherra m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Ég vil fyrst og fremst segja það miðað við þetta allt saman og hvernig þetta mál er vaxið að það er von mín að a.m.k. þetta mál verði til þess að það verði betur og á annan hátt staðið að málum í framtíðinni hvað varðar viðgerðir á varðskipunum og ýmis önnur mál sem snúa að útboðum af hálfu ríkisins. Ég hef þá tilfinningu að hægt sé að ganga lengra í því að vinna verk hér á Íslandi en er í dag.“

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að niðurstaðan frá 2001, í miklu minna verki en verið er að tala um núna, var þessi: 12% fram úr áætlun vegna gengisbreytinga, 45 millj. þegar öll aukaverk voru komin til. Er þetta sýn hæstv. iðnaðarráðherra á íslenskum iðnaði í samræmi við framansagt? Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra: Hefur hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin ekkert lært af málinu og þeirri niðurstöðu sem kom út úr útboðinu 2001? Hvað á þetta að ganga lengi svona?