131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:12]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði vænst þess af hæstv. ráðherra að hún gerði meira með ályktanir þingsins en lýsti sér í orðum hæstv. ráðherra og teldi að hún hefði stuðning af því ef hún hefði þingið með sér í þessari skoðun og hvaða leiðir þingið vill fara í því efni, vegna þess að þingið mundi þá setja fram ákveðnar leiðbeiningar um það hvernig það vildi að farið yrði í þessa vinnu. Ég heyri að það er einungis Seðlabankinn sem er með málið í skoðun a.m.k. að sinni og hefði talið eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins kæmu að því eins og hæstv. ráðherra nefndi. — Ég ætlast nú til þess að hæstv. ráðherra hlaupi ekki úr salnum á meðan ég er að tala við hana. — Ég spyr hvort hæstv. ráðherra telji ekki rétt að aðilar vinnumarkaðarins komi að þessu máli eins og hér er lagt til.

Hæstv. ráðherra nefndi ekki heldur dráttarvextina sérstaklega í andsvari sínu áðan, hvort hún telji að fara eigi einhverjar leiðir til þess að lækka þá. Hæstv. ráðherra gerði það ekki. Hæstv. ráðherra nefnir stimpilgjöldin og það má jú heyra á máli ráðherrans að hún telji að þetta sé óæskilegt gjald sem beri að afnema en talar um leið að þetta sé gjald sem afli tekna fyrir ríkissjóð, en þá verður hún að hafa í huga að við erum að tala um tekjur sem eru helmingi hærri en áætlaðar voru á fjárlögum. Í því ljósi hlýtur hæstv. ráðherra að vera mér sammála að þetta séu óréttlát gjöld sem beri að afnema, ekki síst þegar ríkið hefur raunverulega tekjur af sömu lánum þó að þau einungis flytjist á milli lánastofnana ef fólk skuldbreytir lánunum. Þetta er afar óeðlilegt og ég vænti liðsinnis hæstv. ráðherra í að breyta því.

Mér væri í mun að heyra hvort hæstv. ráðherra telji ekki að fara eigi fram formleg nefndaskipan í þessu sambandi með aðild aðila vinnumarkaðarins og að ekki sé nægjanlegt að hafa Seðlabankann einan í þessu máli.