131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:34]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þó að vextir um allan heim séu mjög lágir nú sem stendur og Libor-vextir séu mjög lágir man ég þá tíð að þeir fóru upp í 7–8%. Þá held ég að mundi nú kveða við annan tón hjá sumum sem væru kannski með 2% vaxtaálag ofan á þá vexti, að fara að borga 10% af upphæðinni, af allri lánsupphæðinni á hverju ári. Þá færi að hvína í sumum. Þau lán sem veitt eru erlendis eru nefnilega með dulinni verðtryggingu að þessu leyti.

Svo vil ég undirstrika að verðtryggð lán á Íslandi hafa ætíð — ætíð — verið ódýrari en óverðtryggð fyrir skuldarann. Ef frá eru talin örfá verðbólguskot sem hafa komið undanfarið í stuttan tíma þá hafa þessir vextir ætíð verið lægri. Ef menn hugsa um hag skuldaranna ættu menn að viðhalda verðtryggingunni.

Varðandi það að þetta fjalli um kosti og galla verðtryggingar, þá stendur síðast í greinargerðinni, með leyfi herra forseta:

„Flutningsmenn telja að fyrsta skrefið sé að gera þá úttekt sem hér er lögð til og áður hefur verið lýst og að gerðar verði áætlanir til nokkurra ára um afnám verðtryggingar miðað við mismunandi verðbólgustig og forsendur Seðlabankans um verðbólguspá.“

Þetta er sem sagt tillaga eins og stendur í fyrirsögninni: Tillaga til þingsályktunar um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum. Þetta er ekki spurning um neitt annað. Menn eru ekkert að skoða kosti og galla. Ég væri til í að skoða tillöguna ef hún héti: Tillaga til þingsályktunar um hvort afnema eigi verðtryggingu á fjárskuldbindingum, þá getum við rætt kosti og galla og jafnvel hætt við ef það skyldi nú koma í ljós, sem ég er nærri viss um, að verðtryggingin sé skuldurum hagstæðari. Svo getur vel verið að einhverjum sé illa við skuldara.