131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:14]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hagstofa Íslands er sú stofnun íslenskra stjórnvalda sem kannski nýtur hvað mestrar virðingar langt fyrir utan landsteinana. Þar er gríðarlega fært fólk, hún stendur á gömlum merg og öll vinna hennar þykir mjög til fyrirmyndar, samanber íslensku þjóðskrána. Eigi að síður eru það ekki starfsmenn Hagstofunnar sem eiga að ráða því hver aðferðafræðin er við þessar mælingar. Það er fyrst og fremst hinn pólitíski vilji sem segir það. Við höfum rökin, þau liggja alveg fyrir. Aðrar þjóðir mæla þetta ekki vegna óvissunnar sem það veldur. Það er hægt að mæla þetta á marga vegu og orkar svo mjög tvímælis þannig að við höfum öll rök til þess að fara fram með skoðanir okkar og meiningar.

Ég vil líka segja, herra forseti, að löngum hefur það verið þannig að þegar ég hef rætt um þann góða banka Seðlabankann og gagnrýnt hann hefur það oftast nær verið talið hálfgert guðlast, það væri ekki við hæfi að sá banki væri gagnrýndur á Alþingi. Ég tel hins vegar full rök fyrir því að löggjafarþingið ræði störf Seðlabankans, viðhorf hans og sjónarmið og hafi fullan rétt til að deila á það sem gert er og setja fram önnur sjónarmið. Sú vaxtastefna Íslands sem hefur lengi verið hér er okkur til töluverðrar minnkunar. Þetta er ofmat á því hvaða áhrif þetta hefur, þetta er rangt og við ofmetum í öllu tilliti hvað við getum stjórnað þessu landi með vöxtum. Það hefur margsannað sig, það er mjög mikið ofmat á því. Það væri gríðarlega æskilegt fyrir alla efnahagsþróunina að við tækjum lögin um Seðlabankann til endurskoðunar og tækjum þá fleiri markmið inn en núna eru í lögunum.