131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þrífösun rafmagns.

575. mál
[13:02]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrr í vetur beindi ég skriflegri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um þrífösun. Þá spurði ég, með leyfi forseta:

„Hvar á landinu er þrífösun rafmagns ekki lokið og hvar er hún fyrirhuguð á næstunni?“

Þetta er mikilvægt málefni fyrir hinar dreifðu byggðir sem ekki búa við þrífösun rafmagns. Það kemur í veg fyrir ýmiss konar atvinnuuppbyggingu og búrekstur að búa ekki að slíku. Í framhaldi af því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra núna hvort hafin sé vinna við þá kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir þrífösun rafmagns sem sögð var á döfinni í svari ráðherra við fyrirspurn þeirri sem ég nefndi áðan.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Rafdreifikerfi landsins til sveita var að stórum hluta byggt upp sem einfasa kerfi í byrjun og enn eru um 4.800 km af 11 og 19 kV línum í dreifbýli einfasa eða tæp 60% af þessum línum í dreifikerfi Rariks og Orkubús Vestfjarða. Einfasa línur eru um allt land en lengstu línurnar eru þó á fremur strjálbýlum svæðum.

Ekki er unnið sérstaklega að þrífösun á ákveðnum svæðum heldur er hún samfara endurnýjun kerfisins.“

Síðar í svarinu segir, með leyfi forseta:

„Hjá fyrirtækjunum hafa styrking og endurbætur veikustu hluta aðveitu- og dreifikerfisins haft forgang, því næst hafa komið þeir hlutar kerfisins þar sem mest tap er í kerfinu. Af þessari ástæðu hefur uppbygging þriggja fasa kerfis ekki gengið hraðar fyrir sig en raun ber vitni. Raunar felst í endurnýjun dreifikerfisins þrífösun þess og aðgangur notenda að þriggja fasa rafmagni hefur batnað verulega en aðeins hluti þeirra hefur eigi að síður kosið að taka þriggja fasa rafmagn.“

Hér er um að ræða mjög hægfara þróun og segir í lok svars, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðuneytið óskaði nýlega eftir því við Rafmagnsveitur ríkisins að gerð yrði kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um brýnustu þörf fyrir þrífösun dreifikerfisins, sem byggðist á fyrrgreindri skýrslu um það efni og reynslu af notkun rafhrúta við þrífösun hjá einstökum notendum á síðustu tveimur árum.“

Þetta er mjög mikilvægt atvinnumál fyrir dreifbýlið og nauðsynlegt er að umbætur og endurbætur gangi eins hratt fyrir sig og kostur er og að unnið sé eftir afgerandi áætlun um það og að þeir sem ekki búa að þessu viti hvar þeir standa, sérstaklega í ljósi þeirrar markaðsvæðingar raforkumarkaðarins sem nú stendur yfir og breytir að mörgu leyti stöðu núverandi raforkufyrirtækja sem mörg hver kannski munu breyta um eðli og eignarhald á næstu árum. Þess vegna er mjög áríðandi að þrífösun rafmagns verði lokið áður en frekari breytingar eða afskipti hins opinbera af rekstri þessara félaga á sér stað. Hér er um að ræða mikilsvert hagsmunamál byggða og atvinnulífs. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra sem hér er nefnd.