131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Opinber hlutafélög.

619. mál
[13:28]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt og undir forustu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar flutt frumvörp til breytingar á lögum sem lúta að því að opinber félög þurfi að sæta upplýsingaskyldu. Þau frumvörp hef ég flutt og hvet hæstv. ráðherra að huga að lagasetningu í þessu efni því sem stjórnarmaður í Landsvirkjun, sem stjórnarformaður Faxaflóahafna og hafandi langa reynslu af setu í opinberum félögum fullyrði ég að þetta form, félagsform í opinberum rekstri, er viðrini, er bastarður því að þau njóta ekki hins eðlilega aðhalds eigenda á hluthafa- eða sameignarfélagafundum og þau njóta ekki þess eðlilega aðhalds opinberra aðila með því að þurfa að hlíta upplýsingaskyldum og opna bækur sínar og ákvarðanir gagnvart almenningi. Við þær aðstæður skortir einfaldlega því miður óþarflega og óhóflega á aðhald með rekstri af þessu tagi og það er brýnt að hæstv. viðskiptaráðherra beiti sér fyrir úrbótum á því.