131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:51]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég trúi því að hér sé lagður varanlegur og góður grunnur að áframhaldandi samstarfi ríkis og sveitarfélaga og vonandi verkefnatilfærslu.

Ég vil benda hv. þingmanni á að stór hluti þeirrar kaupmáttaraukningar sem almenningur í landinu hefur fengið á undanförnum árum er fólginn í skattalækkunum, ekki endilega kauphækkunum, heldur skattalækkunum. Hvað þýðir það? Það þýðir auknar ráðstöfunartekjur. Það er það sem málið snýst fyrst og fremst um. Hversu mikið eykst ráðstöfunarfé sveitarfélaganna á því tímabili sem um ræðir? 9,5 milljarða kr. Það er það sem mestu máli skiptir, hæstv. forseti.