131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hvar Fjármálaeftirlitið er vistað í stjórnkerfinu, hvort það heyrir undir viðskiptaráðuneytið eða starfar í skjóli Alþingis mundi ekki breyta því að Fjármálaeftirlitið ætti að sinna hlutverki sínu, það ætti að starfa samkvæmt lögum. Í báðum tilvikum væri að sjálfsögðu þannig frá hnútum gengið að réttur farvegur yrði sá að beina tilmælum til stofnunarinnar um störf hennar. Það hefur engu breytt þó að Ríkisendurskoðun heyri undir Alþingi að menn geta komið málum til Ríkisendurskoðunar og óskað eftir því að hún skoði hluti sem eru á verksviði hennar. Þannig yrði það að sjálfsögðu áfram um Fjármálaeftirlitið. Sá hluti ræðu hæstv. viðskiptaráðherra var því náttúrlega hreinn útúrsnúningur.

Hæstv. ráðherra virðist forðast að ræða efnið sjálft. Er ekki ærin ástæða til að fá upplýsingarnar fram í dagsljósið í stað þess að skjóta sér á bak við einhvern formalisma? Ef réttur alþingismanna og Alþingis til að krefja upplýsinga um mikilvæg mál, þó að þau séu úti í samfélaginu, þó að þau séu úti í atvinnulífinu, er ítrekað að engu hafður og sú tilhneiging ágerist sífellt, þá verður að grípa til annarra úrræða. Það er ekki þolandi að Alþingi sé algerlega máttlaust gagnvart því að fylgjast með framvindu mikilvægra málaflokka eins og fjármálaþjónustu í landinu eða því hvort menn séu farnir yfir landamæri sem eiga að vera á milli verksviðs fjármálastofnana annars vegar og annarra aðila hins vegar.

Bankar og lánastofnanir eiga að starfa eftir lögum og það eru stíf ákvæði um að þau haldi sig við verksvið sitt. Þegar grunur kemur upp um að eitthvað annað geti verið á dagskrá er harla sérkennilegt ef Alþingi, sem setur lögin, hefur engin úrræði til að fylgjast með því hvort svo sé og ef ráðherrar hafa að engu þá skyldu sína að reyna að upplýsa Alþingi um mikilvæg opinber mál.