131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:25]

Fyrirspyrjandi (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í upphafi þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að verða við því að svara fyrirspurn minni um dragnótaveiðar í Eyjafirði. Þó að málinu sé að vissu leyti lokið finnst mér samt ástæða til að taka það upp hér.

Forsaga málsins er sú að í febrúar fréttist af því að sjávarútvegsráðuneytið hefði veitt leyfi til dragnótaveiða í Eyjafirði innan þeirra marka sem gilda um dragnótaveiðar. Þessi mörk eru lína sem dregin er réttvísandi austur-vestur um Hríseyjarvita. Þessi leyfisveiting vakti nokkuð hörð viðbrögð hjá mörgum og þá sérstaklega félagsmönnum í svæðisfélaginu Kletti sem er félag smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi. Félagið gagnrýndi leyfisveitinguna og að ekkert samráð skyldi hafa verið haft við t.d. útgerðaraðila á svæðinu. Klettur hefur lengi ályktað um dragnótaveiðar og hafa þær ályktanir verið á þá leið að færa veiðarnar utar í firðinum og jafnframt hefur félagið mótmælt öllum undanþágum.

Nú eru að sjálfsögðu mjög skiptar skoðanir um dragnótaveiðar og tvær hliðar á öllum málum. Í mörgum tilfellum eru dragnótaveiðar í góðu lagi ef þær eru notaðar á réttum botni. Mér skilst að fyrirtækinu sem fékk leyfið hafi gengið það til að stunda tilraunaveiðar innan þessarar línu til að afla þorsks í tilraunaeldi. Tilraunaveiðar af þessu tagi eru liður í rannsóknum og þróunarstarfi á sviði þorskeldisrannsókna.

Ég skil þessi rök en finnst að þegar slíkar undanþágur eru veittar sé mikilvægt að hafa samráð við viðeigandi aðila og að passað sé upp á að gera það í sem mestri sátt við heimamenn. Í þessu tilfelli átti óánægjan ekki að koma á óvart af því að slík undanþága var einnig veitt árið 2002. Það má geta þess að sumir halda því reyndar fram að veiðarnar hefðu vel getað verið stundaðar fyrir utan línuna en ég legg ekki mat á það, ég læt fagmönnum það eftir.

Það er þó eitt atriði sem ég vil einnig koma inn á en það eru hverastrýturnar sem eru alveg ótrúlegt náttúruundur og á heimsmælikvarða. Þær er að finna innan þessara marka og verð ég að segja að mér var nokkuð brugðið þegar ég heyrði af veiðunum, ekki síst vegna þeirra. Það er höfuðatriði í þessu tilliti að allir hlutaðeigandi aðilar viti af því að til standi að gefa út slíkt leyfi. Í tilfelli strýtnanna eru svæðin friðuð en ekki eru allir sem vita af þeim og geta eyðilagt þær óviljandi. Hvorki Fiskistofa né Hafró gátu brugðist við og gefið út leiðbeiningar til handa leyfishafanum til að forðast þessi svæði. Sem betur fer fór þó ekki illa.

Svæðisfélagið Klettur fékk fljótt fund bæði með hæstv. sjávarútvegsráðherra sem og hv. sjávarútvegsnefnd og ber að þakka það. Mér skilst að umræður sem fóru þar fram hafi verið góðar en áður en þeir fundir komu til lagði ég fram fyrirspurn mína sem við ræðum hér, en hún hljóðar svo:

Hvaða rökstuðningur liggur að baki ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að leyfa dragnótaveiðar í Eyjafirði?