131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:33]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp hér og tek undir þau varnaðarorð sem fram komu í ræðu hennar, sérstaklega hvað það varðar að hleypa dragnótinni inn á viðkvæmt svæði þar sem eru sérstök náttúrufyrirbrigði eins og hverastrýturnar. Þó að það sé vissulega rétt sem hér hefur komið fram að lífríkinu stafar minni hætta af dragnótinni en botnvörpunni þá er alveg ljóst að á svæðum eins og þarna er um að ræða, sem eru mjög sérstök og þarfnast friðunar og jafnvel algerrar verndunar, er mjög hæpið að hleypa dragnótinni inn.