131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:51]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það var svo sem ekki ætlunin að snupra hv. þingmann fyrir ókunnugleikann heldur fór hún ekki rétt með. Ég treysti því þá að hún þekki þetta nægjanlega vel.

Hins vegar er alveg greinilegt að hún þekkir ekki nógu vel hvernig þarf að rannsaka fæðuval og meltingu hjá dýrum. Þær aðferðir sem hún er að tala um eru ekki einu sinni stundaðar á landdýrum. Hvernig í ósköpunum á þá að vera hægt að stunda þær á dýrum sem eru í hafinu?

Mér fannst hv. þm. Sigurjón Þórðarson komast ákaflega vel að orði þegar hann sagði að það væri sérkennilegt að tegund sem er til í eins miklum fjölda og hrefnan skuli vera á lista hjá CITES.

Það er rétt hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að það væri mjög áhugavert að rannsaka frekar hvalastofna í kringum landið. Þó held ég að stórhvelin væru áhugaverðari en smáhvelin eða tannhvalirnir þó að þeir séu vissulega hluti af lífkerfinu líka sem við þurfum að hafa afskipti af.

Ég veit ekki alveg af hverju svörin hafa vakið svona mikla athygli hv. þingmanna Samfylkingarinnar og vakið svona margar spurningar hjá þeim. Mér fannst þau vera tiltölulega skýr. En það er einfaldlega þannig að þessar vísindaveiðar snúast ekki um afurðir og afurðirnar eru ekki á forræði ráðuneytisins, það eru aðrir sem fara með þær og ég held að skynsamlegt sé að hafa það þannig.

Þó að ekki sé búið að ganga frá samningum við hrefnuveiðimennina held ég að hv. þingmenn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að einhver sérstök vandamál séu þar uppi eða að ekki náist niðurstöður í tæka tíð til að þær veiðar sem ákveðnar verða að fari fram á þessu ári geti hafist.