131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:55]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni voninni um að kjör bænda batni, verði sem allra best og jafnframt annarra sem vinna við hreinsun á æðardúni eða aðra umsýslu. Hins vegar held ég að hv. þm. hljóti að gera sér grein fyrir því, þrátt fyrir það hvernig hann talar, að það er ekki öðruvísi farið með æðardún en aðrar vörur sem við Íslendingar flytjum út. Við gerum ákveðnar kröfur um gæði, þ.e. að varan komi til móts við gæðakröfur á markaði hjá kaupendum eins og hægt er.

Ég bendi hv. þingmanni á það, af því að hann talar mikið um fiskveiðar og fiskvinnslu, að við vinnslu sjávarafurða eru gerðar miklar körfur um gæðaeftirlit. Ég bið hann að hugsa aðeins um hvernig umhorfs væri í íslenskri fiskvinnslu ef ekki væru eftirlitsmenn á hverju strái, svo gott sem, til að fylgjast með því hvernig unnið er að þeim málum. Það er ekkert öðruvísi með vinnslu á æðardúni.