131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Ríkisendurskoðun.

242. mál
[18:01]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun. Er ég 1. flutningsmaður og meðflutningsmenn eru hv. alþingismenn Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Það er engin ástæða til að orðlengja um þetta mál. Hér er verið að ræða hina merku stofnun, Ríkisendurskoðun, sem að mínu áliti, og ég veit að það eru margir fleiri á þeirri skoðun, hefur unnið afskaplega gott starf í gegnum tíðina. Margt hefur breyst til batnaðar í ríkisrekstrinum með tilkomu hennar. Verð ég að segja eins og er að ég sakna þess sárlega af þeim öðrum vettvangi sem ég starfa á, í borgarmálum, að sjá að viðhöfð séu sömu vinnubrögð og hér er gert hjá ríkisvaldinu þar sem Ríkisendurskoðun er sjálfstæð, óháð stofnun sem hefur eftirlit með hinum ýmsum þáttum ríkisrekstrarins. Ég er þess sannfærður að við sæjum t.d. hjá Reykjavíkurborg margt mun betur ef menn hefðu skynsemi, þrek og þor til að fara sambærilegar leiðir þar.

Frumvarpið fjallar hins vegar um það að skilja frá ákveðna þætti sem í rauninni að mínu áliti og flutningsmanna eiga ekki heima hjá Ríkisendurskoðun. Þá erum við bara að tala um hefðbundna endurskoðun á fyrirtækjum hins opinbera sem er á færi og er unnið alla jafna af venjulegum löggiltum endurskoðendum, ef svo má segja. Hér er um það að ræða að skilgreina betur hlutverk Ríkisendurskoðunar, að hún sé þessi innri endurskoðun, ef þannig má að orði komast og er almennt notað þegar menn ræða mál sem þessi, sem hefur eftirlit og gerir úttektir og gerir þessa hluti sem við þekkjum og gerir það mjög vel. Ef eitthvað er finnst mér að það eigi að styrkja þann þáttinn og ég ítreka enn og aftur ánægju mína með þessa stofnun.

Það sem á hins vegar heima á einkamarkaðnum er hin almenna endurskoðun, að hún verði á höndum einkaaðila hvað þetta varðar, hjá endurskoðunarfyrirtækjum, löggiltum endurskoðendum sem við þekkjum hér á landi og sem sömuleiðis hafa unnið mjög gott starf. Í rauninni er málið einfalt, að Ríkisendurskoðun sinni innri endurskoðun en önnur endurskoðun verði á hinum almenna markaði hjá einkaaðilum, hjá starfandi endurskoðunarfyrirtækjum.

Ég legg til að þessu máli verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.