131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:37]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir mjög athyglisverða og upplýsandi ræðu. Ég er ekki viss um að það beri að kalla þetta aumingjaskap í umræddum þingmönnum. Ég er ekki sammála því. Ég vil miklu frekar tala um óheilindi eða óheiðarleika. Við höfum einmitt orðið vör við það að þessir sömu þingmenn hafa gengið á bak orða sinna í sóknardagamálinu. Þetta eru sömu mennirnir. Ég vil byrja á að minnast á Einar Odd Kristjánsson. Hann gekk á bak orða sinna. Á fundi fyrir vestan lofaði hann að halda í sóknardagakerfið. Það er eins og þessir ágætu þingmenn, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson og ekki má gleyma hv. þm. Hjálmari Árnasyni, telji að orð sem þeir segja í umræðu um sjávarútvegsmál skipti bara engu máli og það þurfi ekkert að halda þau. Það er því ekki endilega um aumingjaskap að ræða. Ég er ósammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni hvað það varðar. Ég vil miklu frekar telja þetta vera alger óheilindi og í rauninni svik við kjósendur.

Ég hef orðið var við að sumir þessara þingmanna hafa ekki séð sóma sinn í því að biðjast afsökunar og hafa jafnvel skrifað, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason, ómerkilega grein á netmiðil þar sem hann segir að hann styðji sóknardagakerfið eða vilji setja botn í það og að búið sé að samþykkja tillögu um að gera úttekt á kostum og göllum færeyska kerfisins, sóknardagakerfisins, sem við í Frjálslynda flokknum styðjum. Þess vegna finnst mér í raun að ekki eigi að kalla þá aumingja eða tala um aumingjaskap heldur miklu frekar að um óheilindi sé að ræða.