131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[16:33]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Lítið mál og gott. Verið er að auka jafnræði. Styrk til slíkra framkvæmda á að veita til verkefnisins, þ.e. til þeirra sem njóta, borgaranna í viðkomandi sveitarfélagi og skiptir ekki máli í því sambandi hvernig farið er að. Ég get því stutt frumvarpið, þ.e. ef ég fellst á að veita styrki yfirleitt, en ég er yfirleitt dálítið gagnrýninn á að veita þá.

Þetta er angi af miklu stærra máli. Það hefur gerst á undanförnum árum að upp hafa komið galdra- og töframenn sem sjóða naglasúpur út um allan bæ, þ.e. þeir setja nagla í pott og galdra og galdra og svo veiða þeir naglana upp úr og eftir situr ágætis kjötsúpa og allir halda að þetta detti ofan af himnum. Komin eru risastór íþróttamannvirki í lítil sveitarfélög, sundlaugar, skólar og ég veit ekki hvað. Þetta virðist koma úr engu. Þetta er búið til eins og naglasúpa og allir eru voðalega hrifnir.

Það er meira að segja talað um að setja vegagerð að einhverju leyti í svona kerfi. Ég vil einnig nefna nýju íbúðalánin, fólk fær íbúðina si svona bara með því að flytja inn, ekkert meira. Ekki málið, þetta er svo einfalt. Bíllinn er kominn, innbúið fer bráðum að koma, það er komið á raðgreiðslur og jafnvel fötin líka. Það eru því komnir galdramenn sem búa til hluti og lífsgæði eins og það hafi dottið ofan af himnum. Svo erum við með LÍN sem lánar fólki fyrir tekjumissi ef það skyldi fara út í þá fjárfestingu að mennta sig o.s.frv. Allir galdramennirnir segja: Nú færðu þetta eins og þú vilt, en þeir gleyma að geta um það sem fór í súpuna, því allt er þetta ráðstöfun á framtíðartekjum, framtíðartekjum borgara sveitarfélaganna, framtíðartekjum skattborgara, framtíðartekjum einstaklingsins sem kaupir sér hús. Hann á ekki nema ákveðið magn af framtíðartekjum. Hvað gerist þegar hann er búinn að ráðstafa góðum hluta af því? Þá ráðstafar hann því ekki aftur. Það er svo einfalt. Þetta er mjög einfalt.

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Hvað segir þetta og af hverju er þetta í stjórnarskránni? Vegna þess að lánveitingar sem sveitarfélög, ríkið eða skatturinn tekur er skuldbinding á skattborgara framtíðarinnar. Skuldbinding á börnin okkar, á þá sem eiga að erfa landið. Þess vegna höfum við stjórnarskrána. Það má ekki taka lán af opinberum aðila eða skatt nema með lögum. Þá þarf að liggja tært fyrir að verið er að taka lán og skuldsetja skattgreiðendur framtíðarinnar.

Í sveitarfélögunum fylgjumst við með því að verið er að byggja stór mannvirki. Þetta dettur ekki ofan af himnum. Nei, þetta skal greitt í framtíðinni af börnum okkar. Þessi tíska er orðin stórhættuleg, vegna þess að menn hafa ekki fært skuldbindinguna eins og skyldi. Ég verð að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með eftirlit með fjárhag sveitarfélaga, að þeir skuli horfa á að það dettur niður allt í einu eitt íþróttahús, eitt stykki íþróttahús fyrir fleiri hundruð eða þúsund milljónir í einhverju sveitarfélagi og það er enginn kostnaður. Engin skuldbinding, ekki neitt. Auðvitað er þetta skuldbinding. Menn eiga að taka greiðsluna sem sveitarfélagið verður að greiða fyrir þetta með þessum eða öðrum hætti til framtíðar og færa það núvirt til skuldar hjá sveitarfélaginu. Það eiga menn að gera. Svo eiga þeir að líta til þess hvað gerist þegar leigutíminn eða lánstíminn er liðinn. Hvað gera menn þá? Eru menn skuldbundnir til að taka aftur á leigu og með hvaða kjörum? Hafa menn undankomuleið, t.d. að byggja nýjan skóla við hliðina á þeim gamla þannig að sá skóli verði ónýtur eða nýtt íþróttahús við hliðina á þannig að framkvæmdin verði ónýt, til að hafa einhverja samningsstöðu gagnvart þeim sem eiga viðkomandi fasteignir að loknum samningstímanum? Allt þetta á að færa til skuldar hjá sveitarfélögunum.

Ég vil meina að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar segi mönnum að þeir verði að gera það, vegna þess að það má ekki leggja neinn skatt á nema með lögum. Það er verið að leggja skatt á með þessum hætti til framtíðar. Sveitarfélagið getur ekki borgað þetta eftir 10–20 ár með öðrum hætti en með sköttum. Þeir gera þá ekki annað við þá skatta á þeim tíma. Þeir byggja ekki nýja skóla, fara í ný verkefni eða reka sveitarfélagið fyrir þá peninga sem fara þarna út.

Þetta litla frumvarp er því angi af miklu stærra máli. Ég tek undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem reyndar misskildi athugasemd mína, ég var eingöngu að gera athugasemd við það hvernig hún talaði um ágóðann af samfélagslegri þjónustu. Ég var ekki að tala um frumvarpið eða hugmyndir hennar um einkaframkvæmd og hættuna sem þar fólst í. Ég tek undir með hv. þingmanni og það er einmitt það sem ég er að vara við. Eins tek ég undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni í sambandi við þá geigvænlega þróun að menn eru farnir að setja alls konar framkvæmdir sveitarfélaga og ríkisins í einkaframkvæmd.

Herra forseti. Ég legg til að hv. nefnd sem fær málið til umsagnar setji í greinargerð með frumvarpinu að skuldbinding vegna slíkra stofnframkvæmda verði fært núvirt til skuldar hjá viðkomandi sveitarfélagi og það sé sjálfsagður hlutur að gera svo. Þá er nefndin búin að gefa merki um það til allra sveitarfélaga að slíka framkvæmd eigi að færa núvirt til skuldar hjá sveitarfélaginu. Sé það gert vita borgararnir í viðkomandi sveitarfélagi að íþróttahúsið datt ekki af himnum ofan, að þetta er ekki einhver guðsgjöf. Nei, þeir munu borga það og ef þeir endast ekki til að borga það borga börnin þeirra það. Þá vita þeir það alla vega þegar þeir sjá glæsilegt mannvirki rísa upp og kannski verða þeir ekki alveg eins þakklátir þeim sem reisti íþróttamannvirkið eða flottu höllina vegna þess að þeir verða að borga það sjálfir.