131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda.

645. mál
[12:53]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Ég tek undir með hv. þm. Láru Stefánsdóttur sem sagði líkt og ég áðan að full ástæða væri til að fara yfir réttindi og skyldur þessa hóps sem fer sífellt stækkandi.

Það er vafalaust rétt hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að þær reglur sem bundnar voru í lög á sínum tíma um stærð, tegund, eðli og gerð sumarhúsa hafa væntanlega verið bornar fram á Alþingi af þáverandi félagsmálaráðherra. Ef ég man rétt, hæstv. forseti, þá fluttist hins vegar málaflokkurinn skipulags- og byggingarlög milli ráðuneyta í kringum árið 1994, frá félagsmálaráðuneyti yfir til umhverfisráðuneytis. Þar með er sá hluti málsins þeim megin hryggjar. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess að við beitum okkur fyrir því, væntanlega í sameiningu ég og umhverfisráðherra, að enn og aftur verði sest yfir réttindi og skyldur þessa hóps og þá væntanlega með aðkomu landeigenda og Sambands sveitarfélaga. Ég lýsi mig reiðubúinn til að hafa frumkvæði að því.