131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Fræðsla um samkynhneigð.

500. mál
[13:58]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mikilsverða málefni. Við höfum borið gæfu til fram til þessa að vera með nokkuð þverpólitíska sátt um að vinna og stuðla að framförum í málefnum samkynhneigðra og ég sé líka fram á að eftir þessa umræðu verði þar engin breyting á. Ég hef til að mynda persónulega átt mjög góð samskipti við hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur sem hefur verið ötull baráttumaður fyrir réttindum og bættri réttarstöðu samkynhneigðra. Ég geri mér vonir um að áfram verði ríkjandi sú þverpólitíska sátt og að við verðum öll meðvituð um að vinna áfram að réttindamálum samkynhneigðra. Það verður ekki gert með sprengingum eða hvellum heldur einfaldlega markvisst eins og við höfum unnið að málinu fram til þessa og að við vitum að hverju við stefnum en við þurfum auðvitað að byggja það á þekkingu og fræðslu.

Ég undirstrika það sem ég sagði áðan varðandi endurskoðun á námskránum. Það verður sérstaklega tekið tillit til þeirra orða sem standa í þessari ágætu skýrslu. Ég mun halda fólki við það verk og fylgja því eftir þannig að það sé alveg skýrt af minni hálfu.