131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:58]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hvert starf í sveitarfélagi eins og Vestur-Skaftafellssýslu skiptir gríðarlega miklu máli. Það þekkjum við sem höfum verið þingmenn á þessu svæði að heimamenn hafa unnið mjög vel í sláturhúsinu sínu á Klaustri. Nú er hins vegar búið að loka því og það er staðreynd máls. Það var mjög mikið barist fyrir því að reyna að halda þessu sláturhúsi. Það er alveg staðreynd þó að hér inni séu einhverjir að tala um riðu og ýmislegt annað sem ég vona að landbúnaðarráðherra lýsi betur á eftir því að hann hefur lengri tíma.

Sláturfélag Suðurlands rekur þetta fyrirtæki. Það var líka mikil umræða á Hvolsvelli á sínum tíma þegar lagt var niður sláturhús þar en byggð upp kjötvinnsla í staðinn. Margir bændur voru á móti því þá en þetta skiptir það samfélag miklu máli. Við eigum að styðja samfélögin í Vestur-Skaftafellssýslu. Hvert starf skiptir máli. Við eigum að horfa til framtíðar og ég treysti m.a. landbúnaðarráðherra til að berjast fyrir því að bændur geti selt afurðir á búum sínum þannig að við eigum að byggja upp. Við eigum ekki að horfa til baka, við eigum að horfa fram á veginn.