131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:43]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hér er auðvitað um mjög mikil menningarverðmæti að ræða. Ég hef áður bent á það að t.d. í héraðsskólum og húsmæðraskólum hefur verið mjög mikið af listaverkum sem hafa mikið menningar- og minjagildi fyrir þá sem hafa gefið o.s.frv. Það er full ástæða til að gefa svona málum gaum þegar annaðhvort er verið að leggja niður stofnanir eða selja þær því að hér er um gríðarleg verðmæti að ræða.

Til gamans má geta þess að mér skilst að í þessu fyrirtæki, Símanum, hafi lengi verið málaðar portrettsmyndir af stjórnarformönnum. Reyndar hafa skipti á stjórnarformönnum orðið dálítið tíð á síðustu missirum þannig að það er ólíklegt að myndir af þeim séu orðnar til. Engu að síður, hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og full ástæða er til að vekja máls á því.