131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:07]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við tvö þingmál saman sem er annars vegar frumvarp til laga um Landbúnaðarstofnun og hins vegar bandormur sem fylgir því, þ.e. breytingar á ýmsum lögum sem málið varða.

Ég vil byrja á að leyfa mér að hrósa hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir að koma með þetta mál hingað inn. Hann hefur beitt sér fyrir því að gera ákveðna endurskipulagningu á stofnanakerfi landbúnaðarins og er það vel og löngu tímabært. Á síðasta ári afgreiddum við frá Alþingi lög um Landbúnaðarháskóla Íslands, sem að mínu mati var mjög þarft og gott skref sem tekið var og ég þykist vita að hæstv. ráðherra sé að skoða fleiri mál af svipuðum toga.

Það var nú frægt fyrr í vetur þegar ráðherra lýsti því yfir að hann gæti gert meira en hann hefur verið að gera og ég tel að hann sé að sýna það í verki og sanna það álit sem ég veit að sumir hafa, að hann er vaskur maður.

Í þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu er lagt til að stofna Landbúnaðarstofnun og henni verði falin framkvæmd ýmissa eftirlits- og stjórnsýsluverkefna. Gert er ráð fyrir að leggja niður þrjár núverandi stofnanir auk þess að leggja niður eitt embætti og færa til verkefni frá öðrum aðilum.

Þær stofnanir sem lagt er til að verði lagðar niður og sameinaðar eru flestar, þó að þær séu ekki margar reyndar, með tiltölulega fáa starfsmenn og búa við nokkra faglega einangrun, má segja, þannig að að því leyti er þetta mál til bóta. Fram hefur komið að samanlögð velta þeirra stofnana sem verið er að sameina er rúmar 500 milljónir samkvæmt fjárlögum þessa árs.

Markmiðin með þessu öllu saman eru augljós, þ.e. að ná fram betri nýtingu starfsmanna og samnýta starfsmenn og starfsemina, auka skilvirkni í stjórnsýslu og eftirliti og gera hana markvissari og koma í veg fyrir hugsanlega skörun í verkefnum og bæta samskipti þeirra sem þurfa að eiga samskipti við þessa aðila, auðvelda það allt saman og gera einfaldara. Þetta mál er því mjög til hagsbóta fyrir þá fjölmörgu aðila sem eiga samskipti við þau svið sem hér um ræðir, fyrir utan að auka gegnsæi og kannski, sem er ekki síður mikilvægt, að auka neytendavernd sem skiptir verulegu máli.

Það eru því margir góðir kostir við þetta mál og ég tel það mjög til bóta svona almennt séð. Hér er á ferðinni mál sem samrýmist mjög hugmyndum mínum varðandi endurskipulagningu á stofnanakerfi ríkisins með fækkun stofnana, með því að ná fram aukinni hagkvæmni og markvissari þjónustu, og grunntónninn í því er sá m.a. að ná fram sparnaði í ríkisútgjöldum. Það á auðvitað að vera eitt af meginmarkmiðunum með þessu öllu.

Með frumvarpinu um Landbúnaðarstofnun fylgir kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins og vil ég gera nokkur atriði sem koma þar fram að umræðuefni. Athygli vekur, sem reyndar hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra í umræðunni, að ekki liggur fyrir greining á húsnæðisþörf hinnar nýju stofnunar en hins vegar er gert ráð fyrir að kostnaður við leigu og hugsanlega breytingar sem eiga eftir að koma í ljós verði talsverður. Í kostnaðarumsögninni kemur fram að miðað er við það og reiknað með að stofnkostnaður geti orðið allt að 20–40 millj. kr. allt eftir ástandi þess húsnæðis sem stofnunin eða höfuðstöðvar hennar munu verða staðsettar í. Það liggur því ekkert fyrir í kostnaðarumsögninni hvernig húsnæðismálum stofnunarinnar verður háttað. Auðvitað má segja að það sé ekki gott að það liggi ekki fyrir en það hefur verið skýrt hér af hverju það er.

Einnig kemur fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins að hugsanlegt sé að rekstrarkostnaður þessarar nýju stofnunar verði hærri en verið hefur vegna þess m.a. að sú starfsemi sem hér er verið að sameina undir eina stofnun hefur notið góðs af sambýli við aðra starfsemi í þeirri aðstöðu sem hún hefur verið, þannig að að þessu leyti er því miður nokkuð óljóst um þau efni er varða rekstur og kostnað.

Hins vegar er bent á það í kostnaðarumsögn að vissulega sé kostur á ýmsu hagræði varðandi kostnaðinn við þessar breytingar. Bent er á lægri stjórnunarkostnað og hugsanlega minni húsnæðiskostnað, ekki síst ef þannig veltist að ríkissjóður geti losað sig við eitthvað af húsnæði með sölu, og þetta er auðvitað einn hluturinn enn sem er frekar óljós í málinu.

Ég vil helst nefna í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins það sem lýtur að fjárhagsstöðu yfirdýralæknisembættisins. Fram kemur að uppsafnaður halli yfirdýralæknisembættisins í árslok 2004 sé um 140 millj. kr. (Gripið fram í: Hvað ætlar formaður fjárlaganefndar að gera í því?) Hér gjammar einn hv. þingmaður inn í: Hvað ætlar formaður fjárlaganefndar að gera í því? Ég geri ráð fyrir að fjárlaganefnd ásamt öðrum tilbærum aðilum muni fara yfir málið og við höfum sannarlega gert það í fjárlaganefnd og þekkjum þetta.

Í kostnaðarumsögninni kemur fram mjög athyglisvert atriði, sem ég tek mjög undir og vil leggja áherslu á við hæstv. ráðherra, þ.e. að það verði skoðað hvort heppilegt sé að breyta því fyrirkomulagi að verulegur hluti starfseminnar, í þessu tilfelli yfirdýralæknisembættisins, sé fjármagnaður með tekjum af sveiflukenndum eftirlitsgjöldum. Ég hygg að þarna felist einmitt skýringin á þessari stöðu, eins og við höfum farið yfir reyndar áður. Ég legg því mikla áherslu á að í þessu sambandi verði farið yfir það hvort gera megi breytingar á þessum hlutum þannig að yfirdýralæknisembættið eða þessi stofnun búi við stöðugri tekjur en verið hefur og menn komi þannig í veg fyrir ákveðin vandamál sem upp kunna að koma, eins og dæmi sanna.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að taka þátt í umræðum um hvar höfuðstöðvar stofnunarinnar eigi að vera staðsettar. Ég skil vel áhuga hv. þingmanna fyrir því að fá slíka stofnun jafnvel staðsetta í heimabyggðum sínum en við eigum eftir að fara í gegnum þetta mál. Ég tel því ekki málinu til framdráttar að ég taki þátt í að nefna einhverja sérstaka staði. Hæstv. ráðherra útskýrði þau mál þannig að ákvörðun yrði tekin þegar stofnunin hefði verið stofnuð og forstjóri verið ráðinn. Út af fyrir sig má segja að það sé rökrétt. Hins má vegar má segja að það væri kostur að málið væri lagt upp þannig að tillaga sé gerð um tiltekna staðsetningu. Svo er ekki í þessu tilfelli en ég fellst hins vegar á rök hæstv. ráðherra.

Það er mjög mikilvægt hvar svona stofnun er staðsett en í þessu tilfelli er hins vegar ekki nema tiltölulega lítill hluti starfsmanna hinnar nýju stofnunar sem hefur starfsstöðvar í höfuðstöðvum hennar. Það skiptir máli og í umræðunni mega menn ekki missa sjónar á þeirri staðreynd. Margir starfsmenn sem falla munu undir þessa stofnun eru með starfsstöðvar sínar um allt land þannig að hér verður um að ræða mikla landsbyggðarstofnun.

Til að mynda má nefna dæmi, svo að maður taki þátt í að ræða um kjördæmi sitt, að Veiðimálastofnun er t.d. með starfsemi á Hvanneyri og eins er rannsóknarstarfsemi á vegum Veiðimálastofnunar á Hólum. (Gripið fram í.) Hér kemur fram í frammíkalli hjá einum hv. þingmanni að Veiðimálastofnun hafi starfsmenn á Selfossi. Þetta sýnir allt hvernig er um málin búið.

Rétt í lokin, virðulegi forseti, vil ég segja að eftir yfirferð yfir málið finnst mér þetta mál ágætlega undirbúið. Landbúnaðarnefnd mun fá þetta mál til meðferðar og þar munum við fulltrúar í landbúnaðarnefnd kryfja málið. Varðandi staðsetningu höfuðstöðvar þá er ekki útilokað að landbúnaðarnefnd komist að samkomulagi um að gera breytingartillögu við þetta frumvarp, um að höfuðstöðvarnar verði staðsettar á tilteknum stað. Ég tel þó fyrir fram að ekki séu mjög miklar líkur til þess.

Ákvörðun um svona endurskipulagningu og lagasetningu um hana er eitt en framkvæmdin annað. Við þekkjum mörg dæmi um að ráðist hafi verið í endurskipulagningu á stofnunum en menn upplifi síðan ákveðin vandamál við framkvæmdina. Út af fyrir sig er það eðlilegt mál vegna þess að sjaldnast sjá menn öll smáatriði fyrir í svona málum frekar en öðrum. En það er bara verkefni sem menn þurfa að takast á við og mér finnst, svona í það heila tekið, að það hafi tekist ágætlega þau skipti sem ráðist hefur verið í slík verkefni. Vandamálin snúa oft að starfsmönnum og við vitum að það er mjög viðkvæmt mál. Ég vonast því til þess, virðulegur forseti, að þegar Alþingi verður búið að afgreiða þetta mál sem lög, sem ég geri fastlega ráð fyrir að verði hér fyrir þinglok í vor, muni mönnum ganga sem best að koma þeim til framkvæmda. Ég tel að hér sé um að ræða mikið hagsmunamál fyrir landbúnaðinn og lýsi sérstakri ánægju málið, ekki síst út frá þeirri staðreynd.