131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Starfslok og taka lífeyris.

247. mál
[18:28]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um rétt til að flýta starfslokum og töku lífeyris.

Eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á er í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu sagt, með leyfi forseta:

„Flutningsmönnum er kunnugt um að sveigjanleg starfslok hafa verið til skoðunar í nefnd sem forsætisráðherra skipaði og hafa skoðað tillögur hennar. Þar er ekki lagt til að fara þá leið sem hér er nefnd.“

Þá vitnar hann jafnframt í hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur í sambandi við frestun starfsloka hjá opinberum starfsmönnum.

Nú er það svo að lögreglumenn gerðu kjarasamninga fyrir fáeinum árum þar sem kveðið er á um að menn skuli hætta störfum — mig minnir að það sé við 65 ára aldur — og þá skuli menn hætta störfum. Það eru afdráttarlaus ákvæði kjarasamningsins sem ég held að sumir hverjir séu ekki alveg sáttir við þegar þeir horfa um öxl nokkrum mánuðum eftir gerð kjarasamningsins. Margir töldu þetta hins vegar hina mestu bót.

Virðulegi forseti. Erindi mitt upp í ræðustól snýr að þeirri nefnd sem hér er komið inn á og hv. flutningsmaður vitnaði til, þ.e. nefnd um sveigjanleg starfslok. Þessi nefnd kom víða við eins og réttilega er skýrt frá. Forsætisráðherra skipaði nefndina í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögu frá 9. maí árið 2000, þar sem ég ásamt fleiri þingmönnum flutti þingsályktunartillögu um að sveigjanleg starfslok yrðu skoðuð. Nefndin lauk störfum 4. október 2002 og þessi mikla skýrsla hefur legið í forsætisráðuneytinu til skoðunar og nú liggur fyrir fyrirspurn frá mér til hæstv. forsætisráðherra um hvort hann muni beita sér fyrir því að fram komi tillögur frá ráðuneytinu í samræmi við tillögur þessarar nefndar.

Mér þykir rétt, virðulegi forseti, og leita eftir samþykki forseta til að fá að vitna aðeins til þriggja atriða sem er meginmál þessarar skýrslu. Þar segir í fyrsta lagi, með leyfi forseta:

„Frestun starfsloka – lenging starfsævi. Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að hægt sé að fresta töku lífeyris til allt að 72 ára aldurs án þess að ávinningur réttinda stöðvist.“

Í öðru lagi. „Flýting starfsloka – stytting starfsævi. Nefndin telur mikilvægt að bein tengsl séu milli aukins svigrúms lífeyrisþega og flýtingar starfsloka annars vegar og réttinda og greiðslna úr lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum hins vegar. Þessi tengsl þurfa að vera einstaklingum algjörlega ljós þegar þeir taka ákvarðanir um hvenær vinnumarkaður er yfirgefinn og taka lífeyris hefst.

Forsenda aukins sveigjanleika er að afkoma lífeyrisþeganna eftir að atvinnuþátttöku lýkur sé tryggð að tilteknu lágmarki og að aukinn sveigjanleiki verði ekki til þess að rýra afkomu þeirra þannig að það kalli á aukinn kostnað annarra, svo sem almannatryggingakerfisins. Því er nauðsynlegt að útfæra allar slíkar hugmyndir vandlega og tryggja að það verði háð takmörkunum sem lúta að einstaklingsbundnum lífeyrisréttindum manna um hversu seint eða snemma þeir geta hafið töku lífeyris. Slíkt yrði vitanlega ekki til að þrengja rétt einstaklinga frá því sem nú er heldur er ljóst að aukinn réttur til flýtingar töku lífeyris mun ekki nýtast þeim sem eiga takmarkaðan rétt fyrir.“

Hér er nefndin að gera tillögu um að það sé á eigin ábyrgð sem menn hefja töku lífeyris fyrr en almenna reglan kveður á um og það sé þá ekki verið að íþyngja skattborgurum með því, heldur sé þetta gert þannig að menn standi á eigin fótum, standi eigin gerðir sínar.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður Jóhann Ársælsson flytur er tillagan hins vegar um það að leggja enn frekari kvaðir á almannatryggingakerfið. Ég held að það sé rangt, virðulegi forseti, og tel að eðlilegt sé í ljósi þess sem nú er að gerast í lífeyrissjóðakerfinu, sem betur fer er það að styrkjast og eflast, að horft sé til þessa máls með þeim hætti sem nefndin leggur til í skýrslu sinni til forsætisráðherra frá því í október 2002.

Í þriðja lagi telur nefndin „að æskilegt sé að sem mestur sveigjanleiki sé fyrir hendi til að einstaklingar geti ákveðið að hefja töku lífeyris að hluta eða geti gert hlé á töku lífeyris ef slíkt hentar þeim, t.d. vegna endurmenntunar. Því mælir nefndin með því að starfsmenn geti minnkað við sig vinnu og hafið hlutatöku lífeyris eftir að tilteknum aldri er náð. Þó skal sett gólf á hvað skerða má hefðbundin eftirlaun sem óhjákvæmilega leiðir af hlutatöku lífeyris. Nefndin leggur til að eftirlaun eftir að vinnumarkaður er yfirgefinn endanlega fari ekki niður fyrir það lágmarkshlutfall sem nú er lögbundið við 56% af þeim launum sem greitt hefur verið af. Slík skilyrði skulu sett til að útiloka fátækt á efri árum sem rekja mætti til hlutatökunnar.“

Í fjórða lagi: „Aðlögun að breyttum kröfum á vinnumarkaði.

Nefndin telur einsýnt að skoða þurfi sérstaklega leiðir til að bregðast við sérstökum þörfum þeirra sem nálgast eftirlaunaaldur. Bent hefur verið á að vandi ýmissa stétta felist í álagi sem erfiðara er að mæta með hækkandi aldri og skertu starfsþreki eldra fólks, þannig séu t.d. annmarkar á að eldri starfsmenn geti sinnt ýmsum störfum sem fela í sér andlegt og líkamlegt erfiði. Allir eru sammála um að óæskilegt sé að fólk þurfi að sinna störfum sem eru því ofviða á einhvern hátt.“

Virðulegi forseti. Hér er stiklað á þeim megintillögum nefndarinnar sem ganga ítarlega og eru ítarlegri en sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram og er allra góðra gjalda verð. Hins vegar verður mjög áhugavert að heyra svör hæstv. forsætisráðherra um hvort hann muni beita sér fyrir því að frekari vinna fari fram varðandi þá tillögugerð sem nefnd um sveigjanleg starfslok gerir tillögur um og fellur að hluta til að þessari þingsályktunartillögu, ef frá er þá talinn sá annmarki sem ég tel á þingsályktunartillögunni að varpa meginhluta þessa máls yfir á almannatryggingakerfið.