131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:30]

Einar Karl Haraldsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan að það hefði verið óþarfur leiðangur sem ríkisstjórnin og tvímenningsvaldið fór í hér í upphafi síðasta vor. Ég get verið sammála því. Hins vegar var ekki óþarft að taka hart á móti sem leiddi til þess að ríkisstjórnarflokkarnir breyttu tillögum sínum fimm sinnum og drógu þær að lokum til baka eftir að forseti Íslands hafði neitað að skrifa undir lögin.

Hér stöndum við nefnilega, og stæðum ekki annars, með miklu betri stöðu, miklu vænlegri tillögur til að taka afstöðu til en við höfðum þá, eins og hafa komið hér frá fjölmiðlanefndinni og margir hafa tekið undir að eru til mikilla bóta. Það var talað um að fyrri fjölmiðlanefnd hefði lagt fram hlaðborð hugmynda sem ríkisstjórnin valdi óhönduglega úr, fyrst og fremst eignarréttarbönn af ýmsu tagi. Nú fáum við sem sagt sjö rétta borð og okkur er ætlað að smakka á öllum réttunum þó að okkur finnist þeir kannski ekki allir jafngóðir eða jafn vel tilreiddir.

Ég get tekið undir það sem komið hefur fram hér að þetta er grundvöllur til þess að standa á. Með tilliti til þess sem á undan er gengið þurfa menn að gæta hófs í því að rífa þessar tillögur í sundur og festa sig um of við einstök atriði. Það breytir ekki því að þessar tillögur fara væntanlega í umræðu og væntanlega ber hæstv. menntamálaráðherra gæfu til að byggja á þeim nýtt frumvarp um heildarlöggjöf. Það verða vissulega tímamót þegar það gerist að við göngum til slíkrar heildarlöggjafar á fjölmiðlamarkaðnum.

Það verður að segjast um þá ágætu hv. þingmenn sem hér töluðu áðan, Bjarna Benediktsson og Birgi Ármannsson, að það hljóta að vera sérstök tímamót fyrir þá þegar vikið er frá þeirri frjálslyndisstefnu sem hér hefur ríkt varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Það er ómögulegt að segja annað en að það séu tímamót þegar í lög eru leidd ákvæði sem takmarka það hversu mikið menn mega eiga í fjölmiðlum.

Maður getur skoðað þessar tillögur nefndarinnar út frá því að snúa hugsuninni á hvolf og segja: Munu þær að einhverju leyti koma í veg fyrir fjölbreytni, fjölræði og gott val neytenda? Þegar ég met þessar tillögur get ekki komið auga á það, ekki heldur þessar eignarhaldstillögur sem eru í nefndinni. Þær eru það rúmar að það ætti að vera hægt að lifa við þær og þær ættu ekki að koma í veg fyrir það að fjölmiðlar geti fjármagnað starfsemi sína og fengið til liðs við sig fjársterka aðila.

Ég vil þó nefna það sérstaklega að langmerkasta tillagan sem horfir til framtíðar er einmitt sú um flutningsrétt og flutningsskyldu. Þar er um slíka almenna reglu að ræða sem nýtast mun um alla framtíð og skiptir ekki máli á hvaða sviði fjölmiðlunar er. Þetta er meginregla, almenn regla, sem á eftir að skila verulegum hagsbótum til fjölmiðlanotenda, (Forseti hringir.) sérstaklega á sviði stafrænna miðla.