131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður átti sig á því að ég hafi undirstrikað það hér að um útvarpsstjóra gilda nákvæmlega sömu reglur og um aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins og skiptir ekki máli hver skipaði hann á sínum tíma. Hann er starfsmaður Ríkisútvarpsins og lýtur að sjálfsögðu sömu reglum um breytingar á þessu félagaformi og aðrir starfsmenn.

Ég ítreka enn og aftur að þó að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vilji gjarnan tjá sig um hverjir eigi að vera starfsmenn Ríkisútvarpsins og hverjir ekki þá ætla ég ekki að gera það og mun ekki gera það í þessari umræðu. Ég tel mig þá vera að skipta mér af því sem ég er einmitt að gera, þ.e. að reyna að klippa á hin meintu pólitísku tengsl, þau tengsl sem við höfum oft og tíðum gagnrýnt í þingsalnum og annars staðar og við erum að reyna að minnka þau áhrif sem hafa verið í gegnum tíðina á Ríkisútvarpið.