131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:03]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður nú sífellt skrautlegra. Eigum við sem sagt að hafa um það þjóðaratkvæðagreiðslu hver eigi að vera útvarpsstjóri? Þá er nú hætt við að pólitíkin fari fyrst að skipta sér af málinu því það er vitað að á Íslandi eru stjórnmálaflokkarnir mjög vel skipulagðir einmitt til slíkra verka. Ég sé því ekki að það sé lausn í þessu máli.

Undanfarnar vikur höfum við ekki verið að ræða um ráðningu útvarpsstjóra, nei, nei. Það var miklu lægra settur starfsmaður RÚV sem við vorum að ráða. Ég veit ekki betur en að starfsmenn RÚV hafi sett útvarpsstjóra af. Þeir samþykktu á hann vantraust. Svo réðu þeir hann aftur þegar hann fór að þeirra vilja.