131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:09]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég furða mig á því sem hér kemur fram hjá hv. þingmanni og hæstv. forseta þingsins, ef honum er ekki betur kunnugt um hvað felst í því makalausa eftirlaunafrumvarpi sem samþykkt var í þinginu fyrir rúmu ári. Staðreyndin er sú að réttindi voru ekki skert. Réttindi voru ekki skert hjá neinum þingmanni vegna þess að (Gripið fram í.) hver og einn gat valið, og getur valið, það kerfi sem áður var við lýði eða það kerfi sem komið var á fót með þessum lagabreytingum. Sú er staðreynd málsins.

Það sem hæstv. forseti þingsins leyfir sér að tala um sem leiðréttingar í sumum tilvikum gagnvart ráðherrum — hvað eru menn að tala um þar? Menn eru að tala um skuldbindingar upp á milljónatugi fyrir lífeyrissjóðinn.

Ég vil gjarnan fara í umræðu um þessi mál ef hæstv. forseti þingsins óskar eftir því. Það er alveg sjálfsagður hlutur. En þau eru ekki sambærileg, þau réttindi sem hér er um að tefla annars vegar og þau réttindi sem almennir starfsmenn ríkisins búa við hins vegar.