131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sé ekki annað en að hv. þm. Helgi Hjörvar sé fyrst og fremst að sinna þingskyldum sínum og sem þingmaður að fullvissa sig um að fjárhagsleg hagsmunatengsl muni ekki hafa áhrif á sölu Símans. Þingmaðurinn er því að verja almannahagsmuni gegn sérhagsmunum og hér er vissulega um opinbert málefni að ræða. Mér finnst, virðulegi forseti, að það hefði átt að leyfa þessa fyrirspurn en hér ríkir allt of mikill undirlægjuháttur og undirgefni gagnvart ráðherrum og allt of mikið um ritskoðun á fyrirspurnum.

Af því að hæstv. forsætisráðherra er hér viðstaddur hlýt ég þó að spyrja hann hverju það sæti að ekki hefur verið svarað skýrslubeiðni frá mér um fjármál stjórnmálaflokkanna sem var lögð fyrir forsætisráðuneytið fyrir einu og hálfu ári, fyrst í janúar á síðasta ári. Undir lok þess þings kom bréf frá forsætisráðuneytinu um að ekki hefði unnist tími til að klára að svara þessari beiðni en að unnið yrði að því í sumar. Ég lagði síðan í haust áfram fram þessa skýrslubeiðni. Nú er bráðum að koma að lokum þingsins og ekkert bólar á skýrslunni. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra af hverju þessari skýrslubeiðni er ekki svarað. Þar var m.a. kallað eftir afstöðu ráðherrans til lagasetningar sem skyldaði stjórnmálaflokka til að birta opinbert yfirlit um útgjöld þeirra í kosningabaráttu og um framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

Þetta hefði ekkert verið voðalega flókin skýrsla og það er ólíðandi að það hafi tekið 70–80 vikur hjá hæstv. forsætisráðherra að svara þessari skýrslubeiðni sem á að taka 10 vikur að svara. Ég hlýt að kalla eftir því að hæstv. ráðherra leggi strax fram þessa skýrslu þannig að hægt sé að taka hana til umræðu áður en þingi lýkur.