131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:18]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki sérstaklega hlutverk mitt að verja Steingrím J. Sigfússon, hv. þingmann, en það er fullkomlega óboðlegt af hæstv. samgönguráðherra að taka til samanburðar árin 1990 og framlög til vegamála þá og líta fram hjá því stóra uppgjöri sem fram fór af hálfu Ólafs Ragnars Grímssonar við Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, vegna hinna margvíslegu samgönguframkvæmda í borginni. Þegar menn taka svo ósanngjarnan samanburð bendir það auðvitað til þess að þeir hafi vondan málstað að verja.

Meginmálið hér er Sundabrautin. Í 10 ár hefur Sundabrautin verið á teikniborðinu. Í sex ár hefur Sturla Böðvarsson verið samgönguráðherra yfir Íslandi og enn veit hann ekki hvar brautin á að liggja. Enn hefur hann enga fjármuni til að byggja brautina en segist ætla að byggja hús, hann hefur bara enga peninga í það. Og, hann hefur ekki enn eftir sex ára yfirvegun tekið afstöðu til þess hvort á henni eigi að vera veggjöld eða ekki.

Virðulegur forseti. Þetta er algerlega ófullnægjandi frammistaða af hálfu hæstv. samgönguráðherra. Hann verður að reka af sér þetta slyðruorð, keyra í gegn þessa mikilvægu framkvæmd, taka afstöðu til þeirra álitamála sem þar þarf að taka afstöðu til og útvega það fjármagn sem þarf til að leggja þessa braut. Það er algerlega nauðsynlegt.

En vegna umræðunnar um Reykjavíkurflugvöll fagna ég því út af fyrir sig að hér við lok umræðunnar, þar sem svo fjölmargir þingmenn hafa lýst afstöðu sinni til flugvallarins og þess að hann eigi að fara, virðist hæstv. samgönguráðherra gera ráð fyrir því eins og aðrir að það sé fyrst og fremst tímaspursmál, spurning um hvenær en ekki hvort flugvöllurinn fer, því að hann hefur gert ráð fyrir því að samgöngumiðstöðin geti engu að síður þjónað öðru hlutverki.