131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:48]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar er lögð fram og vil strax í upphafi máls míns lýsa yfir stuðningi við efni hennar.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að við ráðumst í könnun á viðhorfum og væntingum til stjórnmálaþátttöku kvenna til áhrifa þeirra í íslensku samfélagi og til valda í þjóðfélaginu. Þetta er afskaplega viðamikil könnun sem fram þarf að fara og skiptist a.m.k. í þrjú atriði. Í fyrsta lagi að kannað verði hver viðhorf kjósenda eru almennt til kvenna í stjórnmálum, ekki eins og stundum hefur verið gert að kanna viðhorf kvenna til þátttöku í stjórnmálum, heldur að kanna viðhorf okkar allra til kvenna í stjórnmálum. Það eitt er ansi viðamikið verkefni. Maður veltir því fyrir sér þegar maður skoðar þetta hvort það þyrfti jafnvel að skila áfangaskýrslum vegna þess hve könnunin er viðamikil, byrja á að kanna viðhorf til kvenna í stjórnmálum og síðan er spurningin um hvaða væntingar menn hafa til áhrifa kvenna í þjóðfélaginu og valda almennt.

Maður verður alltaf jafnhissa þegar maður fer yfir þessi mál hversu illa gengur, ekki bara í stjórnmálunum, heldur almennt að konur nái þeirri stöðu að standa jafnfætis körlum að öllu leyti í völdum, áhrifum og ég tala ekki um launum. Ég kannast ekki við það að nokkur maður á mínum aldri eða yngri og margir þeir sem eldri eru hafi einhverjar skoðanir á því að þetta eigi ekki að vera jafnt. Það virðast allir hafa þær skoðanir, alveg sama við hvern maður talar, karla eða konur, unga eða gamla, að að sjálfsögðu eigi að vera jafnræði milli kvenna og karla. En þegar kemur að því að gera eitthvað er eins og allt standi fast og þetta gerist afskaplega hægt.

Ég get tekið undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að þetta verði örugglega betra eftir því sem við eldumst, en maður verður alltaf jafnhissa hve hægt gengur. Ekki er þetta flokkspólitísk mál. Ekki gengur það svo hægt vegna þess að við í stjórnmálaflokkunum séum að rífast um hvort þetta eigi að vera. Þegar maður horfir á hóp flutningsmanna eru þar fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum sem sitja á Alþingi. Ég sé að 1. flutningsmaður og þeir sem flytja tillöguna hafa gætt þess að hafa jafnræði milli karla og kvenna í hópi þeirra sem flytja þingsályktunartillöguna.

Það er margt í greinargerðinni sem mig langar til að bregðast við, en tímans vegna verð ég að velja úr hvað hægt er að fara í. Það að 84% Íslendinga aðspurðir af Gallup telji stöðu kvenna verri en stöðu karla í íslensku samfélagi hlýtur náttúrlega að gefa okkur til kynna að þannig er það. Við þurfum ekki að hjúpa það neinum reyk þegar 84%, nánast allir sem spurðir eru, eru á þeirri skoðun að staða kvenna í íslensku þjóðfélagi sé lakari en karla er það bara svoleiðis og við hljótum að þurfa að bregðast við því. Það er skelfilegt að tölulegar kyngreindar upplýsingar og staðreyndir sem verið er að safna sýna svart á hvítu að um afturför á ákveðnum sviðum er að ræða og við höldum ekki einu sinni því sem náðst hefur á undanförnum árum. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig í ósköpunum standi á þessu.

Það sem fram kemur í greinargerðinni líka er að marktækt fleiri konur en karlar ljúka námi í framhaldsskólum, sérskólum og háskólum. Þetta er hlutur sem við höfum vitað lengi, en hlutur kvenna í skólunum er 63% þannig að hlutur karla er lakari hvað þetta varðar. Mín skoðun er einfaldlega sú að ef við verðum vör við þannig mismun á hlutfalli kynja í einhverjum ákveðnum störfum, í ákveðnum námsfögum eða á ákveðnum sviðum þjóðfélagsins á einfaldlega að fara fram skoðun á því hvað veldur því að þetta sé svona. Það getur vel verið að í einhverjum tilvikum séu ósköp eðlilegar skýringar á þessu og gott að fara í gegnum það og leggja þær fram. En oftast held ég að þetta sé eitthvað sem gerist án þess að við gerum okkur almennilega grein fyrir hvað veldur.

Þátttaka kvenna í atvinnulífi á Íslandi er með því mesta sem gerist eða meira en í nokkru öðru OECD-ríki, 83%. Við getum kannski sagt að við höfum gert stöðu kvenna á atvinnumarkaði betri með nýjum fæðingarorlofslögum þar sem réttur feðra er aukinn. Það jafnar nokkuð stöðu kynjanna á vinnumarkaði því öll þekkjum við það þegar því var haldið fram að konur gætu síður verið stjórnendur í stórum fyrirtækjum því þær ættu á hættu kyns síns vegna að verða ófrískar og falla í burtu í ákveðinn tíma á meðan á fæðingu stendur. En sem betur fer eru feður farnir að nýta sér þennan rétt í auknum mæli og það jafnar stöðuna á milli kvenna og karla á vinnumarkaði.

Hv. 1. flutningsmaður fór yfir hvernig staðan er almennt á atvinnusviðinu, bæði í opinberum störfum og hjá einkafyrirtækjum og hve hlutur kvenna er í raun lítill, alveg sama hvort við skoðum millistjórnendur eða æðstu stjórnendur í stærri fyrirtækjum og millistórum fyrirtækjum. Við höfum orðið vör við það á undanförnum vikum getum við sagt að konur eru sem betur fer aðeins að sækja fram á þessu sviði og vekja athygli á því hvernig þetta er. Það þarf að gera í meira mæli þegar munar svona miklu að við tökum höndum saman um að fela það ekki á nokkurn hátt heldur förum í mjög opna umræðu sem verður vonandi til þess að þetta jafnast.

Annað sem kemur fram, ef við lítum fram hjá lengd vinnutíma og hann er ekki að skekkja launin, er að laun kvenna á árinu 2002 eru aðeins 59% af launum karla. Þá er búið að taka vinnutímann út sem oft hefur verið sagt að valdi því að karlar hafi svo mikið hærra kaup. Þetta hefur versnað á þessum árum og auðvitað veltir maður fyrir sér hvað veldur.

Ég er þriðji karlinn ef ég tel rétt sem tekur þátt í umræðunni og hallar frekar á konurnar þar og veit vonandi á gott að karlar séu farnir að skipta sér meira af þessu en þeir hafa gert hingað til. Hv. 1. flutningsmaður vakti athygli á því áðan að engin kona kom í umræðu um sjávarútvegsmál. Ég veit að við áhugamenn um þau mál mundum fagna því ef konur sýndu í meira mæli áhuga á þeim málaflokki, en einhvern veginn er þetta svona. Sem betur fer held ég og veit og hef fyrir því vissu hér inni að þetta er að breytast og hlýtur að breytast. Alla vega, herra forseti, þetta verður að breytast.