131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Svör forsætisráðherra við spurningu málshefjanda, hv. þm. Ögmunds Jónassonar, valda vonbrigðum þó að vissulega kæmu fram að öðru leyti jákvæðar fréttir í máli hans. Það að vísa til þess að hér sé ekki hefð fyrir því að ráðherrar sitji í stjórnum fyrirtækja og þeir víki þegar um hagsmunaárekstra er að ræða er auðvitað ekkert svar. Það er enn síður svar að reyna að skýla ráðherrum sem fara með framkvæmdarvald, eru ekki kosnir til þess og fara þar á meðal með framkvæmdarvald þegar kemur að einkavæðingu ríkisfyrirtækja, á bak við þingmenn. Það er heldur ekkert svar við þeirri spurningu hvort hæstv. forsætisráðherra sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að fara dönsku leiðina. Ísland hefur algera sérstöðu í þessum efnum, að ekki skuli gilda hér lög um fjármál stjórnmálaflokka og það skuli ekki vera hér nein hefð fyrir því að veita svona upplýsingar. Þar verðum við að taka okkur á. Ef við ætlum að þroska hér áfram opið lýðræðissamfélag verðum við að vinna bót á þessu til að hlutirnir séu hafnir yfir allan vafa. (Forseti hringir.) Þetta snýst ekki um að sanna misnotkun, heldur að hafa hlutina í lagi og að þeir séu hafnir yfir vafa.