131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:48]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Trúnaður og ímynd þingmanna og ráðherra skiptir, held ég, afar miklu máli og raunar meginmáli gagnvart því starfi sem þeir eru kosnir til og einnig gagnvart þjóðinni. Stöðug umræða um að á Alþingi eða innan ríkisstjórnar sé verið að beita vafasömum vinnubrögðum við sölu á almannafyrirtækjum og hygla einstaka aðilum hlýtur að vera mjög slæm, og er það.

Það ætti ekki að þurfa að fá úrskurð frá forsætisnefnd til þess að ráðherrar sæju það réttast að hafa öll sín mál uppi á borðinu. Ég tel einboðið að bæði þingmenn og ráðherrar eigi að gera grein fyrir því við kjör sitt á þing (Forseti hringir.) hver hagsmunastaða þeirra og eignastaða sé, (Forseti hringir.) og skuldastaðan sömuleiðis. Það á ekki að vera neitt leyndarmál, herra forseti.