131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:49]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra áðan fannst mér fyrir margar sakir merkileg og ég fagna henni að sjálfsögðu. Við í Frjálslynda flokknum höfum um árabil mælt fyrir því að fjármál stjórnmálaflokkanna yrðu opnuð og að þar yrði fullkomið gegnsæi. Þetta gegnsæi á að sjálfsögðu einnig að gilda um ráðherra og þingmenn. Mér finnst að það eigi að vera hverjum og einum sem situr á hinu háa Alþingi í sjálfsvald sett að gefa þessar upplýsingar. Margir þingmenn eru til að mynda með eigin heimasíður og þar ætti þeim að vera í lófa lagið að birta þær upplýsingar sem þeir vilja.

Hæstv. forsætisráðherra minntist á skýrslu sem hefur verið deilt út í þinginu. Ég var að blaða í gegnum hana, reyndar á handahlaupum meðan umræðan fór hér fram, og þar kemur m.a. fram að fjárframlög lögaðila til stjórnmálaflokka hafa aukist úr 200 milljónum árið 1998 samkvæmt skattframtölum í 700 milljónir á síðasta ári. Þarna er um háar tölur að ræða og verður mjög fróðlegt að fá að vita hverjir eru að gefa fé til (Forseti hringir.) stjórnmálaflokkanna með þessum hætti.