131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Sáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

705. mál
[14:24]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar viðbótarsamnings nr. 14 við mannréttindasáttmála Evrópu, um breytingu á eftirlitskerfi sáttmálans sem gerður var í Strassborg 13. maí 2004.

Vinna við gerð viðbótarsamnings nr. 14 hófst í kjölfar ákvörðunar ráðherranefndar Evrópuráðsins í nóvember árið 2000 um að leita þyrfti leiða til að auka skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu svo markmiðum sáttmálans um vernd mannréttinda í Evrópu yrði náð. Breytingar á eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans voru orðnar mjög knýjandi vegna gífurlegrar fjölgunar og uppsöfnunar kærumála sem berast dómstólnum ár hvert og hann hefur ekki undan að ljúka. Hefur fjöldi kærumála fjórfaldast á undanförnum tíu árum. Meginástæða fjölgunar kærumála er mikil fjölgun aðildarríkja að sáttmálanum, sem eru nú 45 talsins og ná þau yfir landsvæði með rúmlega 800 milljónir íbúa sem hafa allir beina kæruheimild til dómstólsins.

Helstu breytingar á mannréttindasáttmála Evrópu, sem viðbótarsamningur nr. 14 kveður á um, eru eftirfarandi:

1. Kveðið er á um að einn dómari, í stað þriggja dómara nefndar áður, geti ákveðið að kæra frá einstaklingi sé ekki tæk til efnislegrar meðferðar. Gert er ráð fyrir að við slíka ákvarðanatöku verði sérstakir skýrslugerðarmenn dómaranum til aðstoðar. Þess ber að geta að um 90% allra mála sem berast dómstólnum komast ekki í gegnum fyrstu skoðun og er vísað frá.

2. Málsmeðferð verður einfölduð í tilvikum þar sem dómstóllinn þarf að leysa úr svonefndum „endurteknum málum“, þ.e. málum þar sem dómstóllinn hefur þegar leyst úr sambærilegum álitaefnum. Í stað þess að efnisdómur í þessum tilvikum verði kveðinn upp af sjö dómara deild, eins og reglan hefur verið um alla efnisdóma fram að þessu, verður nægilegt að þriggja dómara nefnd leysi úr þessum málum.

3. Bætt er við nýju skilyrði fyrir því að kæra teljist tæk til efnismeðferðar. Samkvæmt því skal vísa kæru frá vegna meints brots ef ekki verður séð að kærandi hafi orðið fyrir umtalsverðu óhagræði. Umræddu skilyrði verður þó ekki beitt ef virðing fyrir mannréttindum krefst þess að efni kæru sé skoðað eða ef um er að ræða mál sem innlendur dómstóll hefur ekki fjallað um á tilhlýðilegan hátt.

Framangreind atriði stefna öll að því að auka vinnusparnað og stytta þann tíma sem dómstóllinn þarf að verja í bersýnilega ómeðferðarhæf mál eða síendurtekin álitaefni svo hann geti einbeitt sér í ríkari mæli að raunverulegum og mikilvægum álitaefnum um brot á ákvæðum sáttmálans. Hafa ber í huga að við gerð umræddra breytinga á eftirlitskerfi sáttmálans var þess gætt að raska á engan hátt rétti sérhvers einstaklings til að kæra meint mannréttindabrot til Mannréttindadómstóls Evrópu þegar innlend réttarúrræði hafa verið tæmd. Viðbótarsamningur nr. 14 var samþykktur og lagður fram til undirritunar á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Strassborg hinn 13. maí 2004. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu viðbótarsamninginn sama dag og nú hefur 41 ríki undirritað samninginn og sjö þeirra jafnframt fullgilt hann. Viðbótarsamningurinn öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er öll aðildarríki mannréttindasáttmálans hafa fullgilt samninginn. Þegar mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi var farin sú leið að lögfesta hann í heild sinni ásamt viðbótarsamningum við hann, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu.

Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur á yfirstandandi þingi lagt fram frumvarp til laga um breyting á þessum lögum vegna þeirra breytinga á sáttmálanum sem viðbótarsamningur nr. 14 felur í sér.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.