131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[15:01]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þá vinnu sem hefur farið fram í hv. umhverfisnefnd og þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram. Ég tel mikilvægt að skýr ákvæði séu um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, að sérstök lög séu um það svið eins og hér er komið fram með.

Ég vil einnig fagna því að sveitarfélögin hafi meira vald og hafi meira um skipulag og svæðið að segja og að ábyrgðin á verndun svæðisins sé að hluta til á ábyrgð sveitarfélaganna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og það sé þá alveg skýrt hver skilyrðin eru á skipulagi hvað varðar úthlutun svæða í kringum vatnið og að óheimilt sé að vera með fiskrækt í eða við vatnið og önnur slík ákvæði sem hér eru komin inn í sem breytingartillögur með frumvarpinu, þannig að fyrirvari sé alveg skýr hvað varðar ábyrgð sveitarfélaganna og þeirra sem koma að framkvæmd þessara laga.

Ég fagna þessu frumvarpi og þá sérstaklega vinnu umhverfisnefndar við vinnslu frumvarpsins.