131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[23:38]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller. Hann byrjaði á að segja að ekki hafi verið flutt nein varnaðarorð við vinnslu og samþykkt raforkufrumvarpsins. Það er ekki rétt. (KLM: Frá hendi stjórnvalda.) Já, frá hendi stjórnvalda í þinginu. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðu mjög alvarlega við því á öllum stigum ferilsins í markaðs- og einkavæðingarferlinu. Ég man enn þá eftir því hvað ég var hissa á því hve hv. þm. Kristján L. Möller var glaður við hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún var búin að mæla fyrir þessu ferlega skaðlega frumvarpi, raforkulögum. En það er fagnaðarefni að sjá og heyra hv. þingmann viðurkenna að þarna var um veruleg mistök að ræða og hann vildi meira að segja kalla blekkingu af hálfu stjórnvalda. Alla vega lét hann blekkjast.

Alla tíð, alveg frá fyrstu hendi höfum við varað við því sem þarna var að gerast og sagt að það væri blekking að segja að þetta þýddi ekki aukinn kostnað. Meira að segja við gildistökuna síðast lögðum við til að henni yrði frestað meðan menn væru að sjá hvaða afleiðingar það hefði. Það er ekki svo að ekki hafi verið varað við. En hitt er alveg rétt að þetta hefur verið keyrt áfram í fullkominni blindni og það má vel vera að hægt sé að taka undir orð þingmannsins um að það hafi næstum verið beitt blekkingum til að keyra málið fram af hálfu stjórnvalda og af hálfu ráðgjafa hæstv. iðnaðarráðherra.