131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:14]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það að hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, reyni að verja ríkisstjórnina í þessum efnum og halda fram ágæti hennar hvað þetta varðar og ég dreg ekkert úr því að við höfum gert ýmislegt, við erum búin að vera dugleg að ýmsu leyti. En að sumu leyti höfum við ekki gengið nægilega langt að mínu mati. Þar er t.d. mansalið eitt atriði í þessum efnum.

Við vitum núna eftir upplýsingar frá lögreglu að erlendum konum fjölgar á nuddstofum sem kenna sig við erótík, þeim fjölgar í dansklúbbunum sem eru enn þá til staðar illu heilli og bara þetta eru vísbendingar um að mansalið geti verið hér án þess að við vitum af því eða án þess að við opnum augu okkar fyrir því. Í mínum huga er því ekki verið að gera nægilega mikið meðan við höfum vísbendingar af þessu tagi.

Eitt af því sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna bendir okkur á er að við þurfum að taka okkur á í þessu efni. Það nægir ekki að hafa þá grein sem sett var inn í hegningarlögin, það þarf meira til. Eitt af því sem við þurfum að gera er að opna augu okkar fyrir því að það þarf að tengja vændi og mansal saman. Í hvaða tilgangi eru konur seldar á milli landa? Í þeim tilgangi að stunda vændi. Íslensk stjórnvöld hafa lokað augum sínum fyrir því og halda að hægt sé að fjalla um mansal sem einangrað fyrirbæri en í mínum huga er það alls ekki hægt.

Varðandi Palermo-samninginn, það er alveg rétt, við erum aðilar að honum og við hv. þingmaður höfum átt orðaskipti um hann áður í þessum sal. En hvers vegna erum við ekki búin að lögleiða hann? Hvers vegna er ekki búið að innleiða ákvæði Palermo-samningsins í íslensk lög? Það er ein af þeim ávirðingum sem íslenska ríkisstjórnin á fyllilega skilið að fá úr þessum ræðustóli. Ég krefst þess að íslenska ríkisstjórnin fari að lögleiða Palermo-samninginn. Það þýðir ekkert að veifa honum og monta sig af honum ef hann fær ekki lagagildi á Íslandi.