131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er leiður plagsiður hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að leggja okkur, sem höfum leyft okkur að andæfa innrásinni í Írak, orð í munn. Hér kemur hv. þingmaður gapandi upp í ræðustól og heldur því fram að ég hafi sagt að Saddam Hussein hafi verið afskaplegur kvenréttindafrömuður. Hvenær sagði ég það? Ég sagði það ekki. Ég hef aldrei hugleitt það að hann hafi verið kvenréttindafrömuður, mér dettur það ekki í hug. Ég veit alveg við hvaða misrétti konur í arabalöndunum búa. Hins vegar leyfði ég mér að segja að konur í Írak kvarta undan ástandinu sem er í dag og segja fullum fetum: Við höfðum það ekki svona slæmt meðan Saddam Hussein var við völd, áður en innrásarherir Bandaríkjamanna og Breta ruddust hér inn. Það er ekki þar með sagt að þær hafi haft það afskaplega gott. Það sagði ég ekki. En í dag er það þannig að konur hætta sér ekki út á götur, þær vilja ekki sjá börnin sín úti á götum, þær eru fangar inni á eigin heimilum.

Þannig er það. Ástandið fyrir þessar konur hefur ekki skánað. Það hefur versnað. Ég var ekki að tala um neitt annað í andsvari mínu áðan við hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur því enga ástæðu til að leggja meira út af orðum mínum eða leggja mér orð í munn á þann hátt sem hann gerði hér áðan.

Hvers vegna þurfa almennir borgarar í Írak að hætta lífi sínu þó að þeir fari út að kjósa? Hvers vegna er það? Það er vegna þeirrar ógnaraldar sem þar ríkir nú. Sú ógnaröld er hönnuð og sköpuð af innrásarliðinu breska og bandaríska undir stjórn Bush og Blairs. Það er ekki lengra síðan en örfáir dagar að íröksk þingkona — hv. þingmaður vill gera mikið úr að nú séu sjö konur á írakska þinginu — var myrt á heimili sínu.

Konum í Írak er ekki óhætt.