131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Mannréttindasáttmáli Evrópu.

648. mál
[17:32]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um að lögfesta 14. viðauka við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem er undir öðru nafni þekktur sem mannréttindasáttmáli Evrópu. Stjórnarandstaðan í allsherjarnefnd styður þetta mál í efnisatriðum sínum enda var ljóst að Mannréttindadómstóllinn þurfti að bregðast við hinum aukna fjölda mála sem berast honum á hverju einasta ári. Um 45 þúsund mál bárust Mannréttindadómstólnum á síðasta ári en það jafngildir um það bil 1000 málum á hvern dómara sem situr við þann rétt. Á síðasta ári féllu um 720 dómar.

Þessar breytingar lúta því að auka skilvirkni dómstólsins og gera honum fært að mæta þeim málum sem honum ber að gera og þarf að gera með betri hætti. Hins vegar vekur þetta mál fleiri spurningar í víðari samhengi. Við vitum að alls hefur íslenska ríkið verið kært 23 sinnum til Mannréttindadómstóls Evrópu frá árinu 1967. Sjö sinnum hefur ríkið tapað. Þrettán sinnum hafa mál ekki þótt tæk til meðferðar og þrisvar sinnum hefur verið gerð sátt án dóms. Í þeim málum sem íslenska ríkið hefur tapað fyrir þessum mikilvæga dómstóli eru þættir sem snerta alveg grundvallarréttindi borgaranna. Má þar nefna neikvætt félagafrelsi, milliliðalausa sönnunarfærslu, mál sem snertir tjáningarfrelsi, aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds, vanhæfisreglur o.s.frv. Þetta vekur okkur auðvitað til umhugsunar hvort víða sé pottur brotinn þegar kemur að mannréttindamálum og aðgerðum íslenska ríkisins.

Við vitum að Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið stjórnarskrá. Má þar nefna öryrkjadómana, Valdimarsdóminn, gagnagrunnsdóminn og fleiri. Það virðist vera árlegur viðburður hér á landi að ríkisstjórnin fái a.m.k. einn hæstaréttardóm í hausinn. Þetta þekkist ekki á hinum Norðurlöndunum. Ég held t.d. að einungis einu sinni hafi danski hæstirétturinn komist að þeirri niðurstöðu að danska ríkið hafi gerst sekt um að brjóta stjórnarskrá. Við þurfum því að skoða þetta mál í samhengi, bæði þau stjórnarskrárbrot sem íslenska ríkið er að fremja og þau mál sem eru að berast til Mannréttindadómstólsins.

Við sjáum líka að ástæða er til að huga að þessum málaflokki, mannréttindum. Við sjáum viðhorf stjórnarflokkanna til Mannréttindaskrifstofu Íslands þar sem grundvellinum var einfaldlega kippt undan þeirri skrifstofu með því að skrúfa fyrir fjárveitingu skrifstofunnar á fjárlögum. Síðan vildi ráðuneyti utanríkis- og dómsmála hafa um það að segja hvaða mál Mannréttindaskrifstofan ætti að skoða hverju sinni. Þetta er alveg ótæk aðferðafræði og sýnir viðhorf stjórnvalda til mannréttinda að mínu mati. Öll umræða um þennan mikilvæga málaflokk er mjög vandmeðfarin. Við þurfum að átta okkur á því að þegar þrengt er að mannréttindum er réttlætingin iðulega afskaplega fögur. Þetta er gert í góðum tilgangi. En við þurfum að átta okkur á því að frelsið fer yfirleitt hægt og rólega. Það fer ekki allt í einu þannig að við þurfum að spyrna við þegar kemur að þessum mikilvægu málaflokkum sem snerta mannréttindi. Við sáum ákveðið viðhorf til mannréttinda birtast í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra á málþingi Lögfræðingafélags Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands sem hann hélt 26. september 2003 þar sem 50 ára afmæli gildistöku mannréttindasáttmála Evrópu var fagnað. Þar talaði hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason þvert á almenna skoðun um að mannréttindasáttmáli Evrópu hafi svokallað stjórnarskrárígildi þar sem almenn löggjöf eigi að vera túlkuð í ljósi hans. Þessari kenningu sem flestir fræðimenn hallast að var hafnað af hæstv. dómsmálaráðherra. Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um lögfræðilega óskhyggju þeirra sem láta berast með tískustraumum jafnvel frá Strassborg, eins og hann orðaði það. Það mátti ráða af orðum hæstv. ráðherra þvert á allar meginkenningar lögfræði að hann hafnaði hinu lifandi eðli mannréttindasáttmálans og það mátti ráða af hans orðum að það ætti aðeins að túlka mannréttindasáttmálann út frá orðanna hljóðan. Þetta er afskaplega forneskjulegt viðhorf og gamaldags sem flestir fræðimenn hafa hafnað enda þarf samningur eins og mannréttindasáttmáli Evrópu og túlkun hans að þróast í takt við breytta tíma.

Í þessari ræðu hæstv. ráðherra kemur fram ákveðið viðhorf sem ég hef margoft varað við. Þetta viðhorf endurspeglast í hinum og þeim frumvörpum sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn er að leggja hér fram. Það er ekki langt síðan hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um breyting á lögum um meðferð opinberra mála þar sem megininntakið var að leyfa símhleranir án dómsúrskurðar. Sem betur fer spyrnti þingið þar við og þessu var hægt að breyta. En á sama þingi kom fram afskaplega afturhaldssamt frumvarp um útlendinga sem því miður var samþykkt með mjög umdeildum reglum, t.d. hinni svokölluðu 24 ára reglu sem sterkar líkur eru á að vegi að mannréttindum. En það á eftir að koma í ljós.

Við höfum átt umræður í þingi við þingmenn stjórnarflokkanna um hvort það sé réttlætanlegt að starfsmenn þurfi að skrifa undir ráðningarsamninga þess eðlis að þeir þurfi að þola skilyrðislausa lífsýnatöku til að fá viðkomandi starf. Þetta tók ég upp á síðasta þingi og þar mætti ég gríðarlegri andstöðu stjórnarþingmanna er þar kom fram viðhorf stjórnarþingmanna um að þetta væri hinn eðlilegasti hlutur í heimur. Ég algerlega ósammála því að sjálfsögðu. Nú á næstunni mun frumvarp hæstv. samgönguráðherra um svokallaðar IP-tölur og vefnotkun verða rætt. Það eru að sjálfsögðu margar spurningar tengdar því frumvarpi. Þetta mál er enn þá til meðferðar í samgöngunefnd en það hefur heyrst í umræðunni að hugsanlega sé ástæða til að hafa áhyggjur af því og menn hafa bent á það í greinaskrifum að með IP-tölu að vopni sé hægt að fylgjast með netnotkun einstaklinga og tengja þá við heimsókn á ákveðna heimasíðu eða ákveðin ummæli á internetinu. Gagnrýnisraddir hafa bent á að það hljóti að vera eðlilegt, á sama hátt og um símtöl, að lögreglan þurfi dómsúrskurð til að nálgast þessar upplýsingar. En þetta frumvarp er sem sagt núna til meðferðar og á eftir að fá ítarlegri umfjöllun, en þetta hringir viðvörunarbjöllum í ljósi reynslu okkar af frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Varðandi þetta frumvarp hæstv. samgönguráðherra kom fram í umræðunni í síðustu viku að fulltrúi lögreglunnar sagði að hann teldi ekki rétt að ónáða dómstólana, eins og hann orðaði það, til að fá dómsúrsskurð, til að fá upplýsingar um þessar svokölluðu IP-tölur. Það sýnir sömuleiðis einnig það viðhorf sem okkur ber að varast.

Mannréttindi eru heilög og algild. Við þurfum að átta okkur á því að frelsið hverfur hægt og rólega. Tilgangur skerðinga á persónuréttindum er iðulega réttlættur með fögrum fyrirheitum. Bent er á glæpamenn, hryðjuverkahóp, umhverfisógnanir o.s.frv. þegar menn réttlæta slíkar skerðingar. Það er mikilvægt fyrir þingið að líta mjög gagnrýnum augum á frumvörp sem koma frá framkvæmdarvaldinu sem á einhvern hátt skerða eða vega að þessum réttindum. Við höfum því miður vítin til að varast. Hér er mikið í húfi og við höfum hina svokölluðu sakaskrá íslenska ríkisins fyrir framan okkur, bæði gagnvart Hæstarétti og gagnvart Mannréttindadómstóli Evrópu. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum þurfum við að fara varlega.