131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Happdrætti.

675. mál
[17:59]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu nefndarálit um frumvarp til laga um happdrætti. Var einhugur í allsherjarnefnd um það nefndarálit sem hér liggur fyrir og þær breytingartillögur sem hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir.

Yfirleitt koma happdrætti til umræðu í hv. allsherjarnefnd einu sinni á ári og það tengist þá oft fjárlögum og því einkaleyfi sem verið hefur á peningahappdrættum en þetta mál er fyrst og fremst um leyfisskyld happdrætti. Hér er líka um að ræða tilskipun frá EES og í rauninni Eftirlitsstofnun EFTA eða ESA en verið er að setja þetta mál í það horf að ESA uni því og við séum að gera eins og á að gera. Komið er til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið með þeim tillögum sem er að finna í frumvarpinu.

Við fengum marga gesti á fund nefndarinnar eins og hv. formaður skýrði frá og áttum mjög góðar samræður við þá. Ýmsar tillögubreytingar sem frá þeim komu höfum við gert að okkar og er það fyrst og fremst að hnykkja á tilgangi slíkra laga sem hér eru til umræðu.

Einnig var talsvert rætt um leyfin fyrir happdrættin. Þau góðgerðarfélög sem eru með happdrætti, hvort sem það eru Gigtarfélagið, Krabbameinsfélagið, skátarnir eða Blindrafélagið svo eitthvað af því sé nefnt, þurfa að sækja um leyfi fyrir hverju og einu happdrætti. Talað er um að veita þau í mesta lagi tvisvar á ári en síðan var opnað fyrir það með breytingartillögu að ef eitthvað sérstakt standi til, eins og afmælisár eða eitthvað slíkt, sé möguleiki fyrir þriðja skiptinu líka inni í myndinni.

Í upphaflega frumvarpinu var rætt um 35% vinningshlutfall og við það gerðu allir sem til okkar komu miklar athugasemdir. Það kom kannski ekki nægilega fram af hverju sú tala var fundin út frekar en einhver önnur. Nefndin kemur því með breytingartillögu um að það verði í rauninni eins og það var áður, að vinningshlutfallið verði tæp 17% og jafnframt að það komi fram á miðunum. Þarna er verið að tala um ákveðið lágmark en það er ekkert sem segir að þeir sem eru með happdrætti geti ekki haft vinningshlutfallið hærra, þannig að það truflar ekki.

Ég hef verið ein af þeim, ásamt eflaust mörgum fleiri, sem eru þeirrar skoðunar að gera þurfi heildarendurskoðun á öllum þessum málum og hafa peningahappdrættin og allt slíkt í einum lagabálki. Það er ekki núna. Við höfum líka talað um að afla tölfræðilegra upplýsinga bæði um hlutfall vinninga og hvernig þessi mál öll ganga fyrir sig en það bíður betri tíma þegar við ræðum þessi mál aftur.

Það skiptir líka mjög miklu máli, eins og eflaust verður rætt aðeins á eftir, að vernda þá sem haldnir eru spilafíkn. Það kom fram að kannski er eðli þeirra happdrætta sem hér um ræðir ekki slíkt að sá hópur mundi sækja mjög í þau. Talsvert var rætt um happdrætti á netinu og hvernig hægt væri að sporna við þeim en það er mál sem verður að skoða síðar.

Það voru líka áhyggjur af því að ef t.d. Alþjóða rauði krossinn kæmi hingað færu happdrætti eða peningar að fara úr landi. Það er líka leiðrétt í þessum lögum. Einnig komu upp ýmsar spurningar varðandi t.d. það sem er verið að draga um hjá útvarpsstöðvunum og hvort það teldist til happdrætta eða ekki. Niðurstaðan varð sú að gera ákveðnar breytingar til samræmis við umsagnir og það sem gestir komu á framfæri við nefndina.

Afstaða nefndarmanna var eindregin og við stöndum öll að því áliti og þeim breytingartillögum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.